Opnuðu veitingastað á Hellissandi

Helga Jóhannsdóttir og Aníta Rut Aðalbjargardóttir eru ungar stelpur frá Akureyri sem opnuðu nýverið veitingastað á Hellissandi ásamt mökum sínum, bræðrunum Magnúsi Darra og Gils Þorra Sigurðssonum en þeir eru uppaldnir á Hellissandi.
Viðvík restaurant er til húsa í gömlu húsi sem byggt var árið 1942. Það hefur verið gert upp og lítur einstaklega vel út, en staðurinn hefur upp á bjóða stórbrotið útsýni til Snæfellsjökuls, yfir Breiðafjörð og Krossavíkina.
Staðurinn hefur nú verið opinn frá því í júlí og viðtökum ekki verið af verri endanum. 

Aníta Rut Aðalbjargardóttir og Helga Jóhannsdóttir

-Hvað varð til þess að þið ákváðuð að opna veitingastað? 

Gils Þorri kærasti Anítu, er kokkur staðarins og eigandi. Hann útskrifaðist sem matreiðslumaður með sveinspróf frá Gallery Restaurant á Hótel Holt árið 2014 en draumurinn var alltaf að opna sinn eigin veitingarstað heima á Snæfellsnesi. Hugmyndin átti sér svo stað sumarið 2016 og hófst þá leitin að fullkominni staðsetningu. Í lok ágúst það sumar gengum við frá kaupum á Viðvík, gömlu húsnæði sem áður var sveitabær í upprunalegu ástandi. Við tóku miklar framkvæmdir sem hefðu ekki verið mögulegar nema fyrir frábæru iðnaðarmennina okkar. Við opnuðum svo dyrnar á Viðvík Restaurant þann 22. júlí síðastliðinn. 

-Hvernig mynduð lýsa matseðlinum ykkar?

Matseðillinn okkar er lítill og hnitmiðaður með gæði hráefna í fyrirrúmi og einnig skiptir framsetning og útlit matarins okkur miklu máli. Ætlunin er að breyta matseðlinum reglulega og leyfa fólkinu í bæjarfélaginu að upplifa eitthvað nýtt og spennandi. 

   

-Hver sá um hönnunina á staðnum?

Hönnunin á staðnum var gerð í samstarfi við Ragnar Sigurðsson innanhúsarkitekt. Við vorum með mjög ákveðnar hugmyndir í upphafi um útlit staðarins og stemninguna sem við vildum ná fram. Ragnar er mikill smekkmaður og hjálpaði okkur að láta staðinn smella saman. Bekkirnir í Viðvík voru sérsmíðaðir hjá Alter London og lýsingin er öll frá Lumex. Sigurður, pabbi Ragnars, á og rekur Ísastál og létum við hann sérsmíða ýmis húsgögn á staðinn. Happie furniture sá um að smíða borðin, og hjarta veitingarstaðarins, eldhúsið, var hannað af Fastus. 

-Hvað er á dagskrá hjá ykkur næst?

Lokað verður hjá okkur yfir hátíðarnar og fram í febrúar/mars, en þá munum við opna með glænýjan matseðil. Við erum sérstaklega spennt fyrir næsta sumri og ætlum við að reyna að vera búin að koma okkur vel á kortið þá fyrir ferðamenn, íslenska sem og erlenda. 

Meira má finna á facebooksíðu og instagramsíðu þeirra: https://www.facebook.com/vidvikrestaurant/ http://instagram.com/vidvikrestaurant

 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó