Opnir dagar í Háskólanum á Akureyri

Opnir dagar í Háskólanum á Akureyri

Opnir dagar verða haldnir í Háskólanum á Akureyri fimmtudaginn 26. október kl. 11:00-13:00 og föstudaginn 27. október kl. 10:00-12:00. Þar gefst gestum og gangandi tækifæri á að kynna sér námsúrvalið í grunnnámi, og stúdentar og starfsfólk svara öllum helstu spurningum.

Á morgun, fimmtudag, býður HA velkomna útskriftarárganga frá Menntaskólanum á Tröllaskaga, Framhaldsskólanum á Laugum og Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra. Á föstudeginum er svo komið að Menntaskólanum á Akureyri, Verkmenntaskólanum á Akureyri og Framhaldsskólanum á Húsavík.

„Opnir dagar eru í höndum stúdentanna okkar. Þeir kynna námið á sínum forsendum og deila sinni reynslu og upplifun. Í Miðborg, hjarta háskólans, verða básar frá stoðþjónustunni og Hátíðarsalnum er breytt í líflegt sýningarsvæði þar sem hver námsleið á sinn bás. Þar standa stúdentar vaktina og svara spurningum um námið og lífið í HA. Við verðum einnig með skipulagðar gönguferðir um háskólasvæðið og þannig geta þátttakendur kynnst aðstöðunni, sem er fyrsta flokks,“ segir Sólveig María Árnadóttir, verkefnastjóri samfélagsmiðla og samskipta.

Sólveig minnir jafnframt á að öll eru velkomin á Opna daga. „Eins og fram hefur komið tökum við á móti ákveðnum framhaldsskólum þessa daga en ég vil þó undirstrika það að öll áhugasöm eru velkomin á Opna daga. Ég vil því hvetja þau sem hafa áhuga á háskólanámi og vilja kynna sér HA betur að nýta tækifærið og kíkja í heimsókn til okkar á fimmtudag eða föstudag.“

Hér má sjá viðburðinn á Facebook.

Á Opnu dögunum getur þú fengið svör við spurningum eins og:

  • Hvernig virkar þetta sveigjanlega nám?
  • Hvað þarf ég að gera til að fara í skiptinám?
  • Hvað get ég gert með gráðu frá HA?
  • Hvernig er félagslífið?
  • Hvar get ég búið á meðan námi stendur?
  • Hvernig er aðstaðan í HA?

Að loknum kynningum verður boðið til pizzuveislu.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó