Skíðasvæðið í Hlíðarfjalli opnar föstudaginn 15. janúar næstkomandi. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Hlíðarfjalls í dag.
„Það stefnir allt í frábæra helgi í Hlíðarfjalli þar sem opnunartímar eru eftirfarandi
– Föstudagur 15. janúar 13:00 – 19:00
– Laugardagur 16. janúar 10:00 – 16:00
– Sunnudagur 17. janúar 10:00 – 16:00
Svæðið verður opnað með nokkrum takmörkunum sem við biðjum ykkur að virða,“ segir í tilkynningunni. Eftirfarandi takmarkanir má sjá hér að neðan, úr tilkynningu Hlíðarfjalls:
Leyfilegur hámarksfjöldi á svæðið á hverjum tíma er 30% af reiknaðri móttökugetu svæðisins. Endanleg hámarkstala verður gefin út þegar þegar hún liggur fyrir. Við mælum með því að panta miða á heimasíðu okkar, þannig minnkum við hópamyndun við miðasölu. Raðir verða afmarkaðar fyrir hvert svæði fyrir sig og biðjum við um að aðeins einn aðili frá hverjum hóp fari í viðeigandi röð og hinir bíði í bílnum þangað til afgreiðslu hefur verið lokið. Halda skal tveggja metra fjarlægð frá næsta einstakling í röðinni.
Við verðum með öfluga upplýsingagjöf á heimasíðu og Facebook síðu svæðisins þar sem við látum vita ef fjöldi er kominn að hámarki.
Þjónusta:
Miðasala verður aðeins opin í lúgum á vestanverðu skíðahóteli. Smávarningur verður seldur innandyra og biðjum við fólk um að koma inn á skíðahótel að vestanverðu en ekki taka stæði í röðinni við miðasölu.
Skíðaleiga verður opin með takmörkunum, pöntunarkerfi verður sett upp þannig að leigjendur þurfa að panta sér ákveðinn tíma til að fá þjónustu. Nánari upplýsingar um pöntunarferli koma inn á heimasíðu okkar seinna í dag eða í fyrramálið.
Veitingasala verður líklegast lokuð sem og Nestishús og Strýtuskáli (nema salerni verða opin í Strýtuskála).
Salernisaðstaða verður í skíðahóteli, í Strýtuskála og vestan megin við skíðaleigu.
Aðrar reglur svæðisins:
Það verður grímuskylda í og við skíðaskála, í skíðaleigu, á salernum og við upphaf hverrar lyftu.
Tveggja metra regla skal viðhöfð á öllu svæðinu.
Minni flutningsgeta verður í stólalyftum. Þeir sem koma saman mega fara saman í stól en ef einstaklingur eða tveir vilja fara einir þá hafa þeir rétt á því.
Við biðlum til okkar frábæra fjallaskíðafólks að virða það að á meðan fjöldatakmarkanir eru á svæðinu þá eigi viðskiptavinir Hlíðarfjalls sem greiða fyrir aðgang og þjónustu forgang. Þess vegna biðjum við fjallaskíðafólk um að vera ekki að skíða í Hlíðarfjalli á meðan mikill fjöldi er í fjallinu.
Við biðjum ykkur um að fylgjast vel með á heimasíðu okkar: www.hlidarfjall.is sem og á Facebook síðu Hlíðarfjalls þar sem við munum birta nýjar upplýsingar þegar við á. Við biðlum til fólks að hjálpast að í þessu öllu saman svo við getum haldið svæðinu opnu. Förum eftir reglum, sýnum þolinmæði og mætum með góða skapið!
UMMÆLI