Hjónin Guðbergur Egill Eyjólfsson og Birna Friðriksdóttir starfrækja hönnunarfyrirtækið Gjósku sem staðsett er í Brúnagerði í Fnjóskádal. Þar eru framleiddar flíkur fyrir Gjósku sem Birna hannar, hjónin fluttu þangað vorið 2015.
Þann 23. júní stefna þau svo á að opna húsdýragarð Daladýrð, þar sem hægt verður að sjá flest íslensku húsdýrin ásamt nokkrum tegundum hænsfugla. Börnin þeirra þrjú munu vinna með þeim í garðinum. Guðbergur segir að hugmyndin hafi komið til vegna þeirra aðstæðna sem eru í Brúnagerði.
„Þar er 1200 fermetra minkahús þar sem saumastofan okkar er í 100 fm rými. Það eru um 200 sumarbústaðir innan við Þjóðveginn hér í dalnum, einnig er SS byggir búinn að kaupa Fjósatungu við hlið okkar og ætlar að byggja þar bústaði. Illugastaðir stefna á að tvöfalda bústaða fjöldann hjá sér á næstu árum. Svo eru það blessuð göngin, þegar þau koma verður um 15 mínútu keyrsla til Akureyrar.“
„Svo eru það einnig Tjaldstæðin í Systragili og Vagnlaskógi, þannig að hér er margt fólk á sumrin sem vantar afþreyingu og við ætlum að bjóða upp á afþreyingu fyrir fólk á öllum aldri. Þau dýr sem við verðum með eru hestar, kindur, kýr, svín, geitur, kanínur, kornhænur, íslenskar hænur, tvær tegundir af amerrískum hænum, kínverskum hænum, silkihænum og dúfur.“
Eins og fyrr segir stendur til að opna húsdýragarðinn 23. júní og verður hægt að sjá flest öll húsdýrin bæði utan og innandyra. Á staðnum verður trampólín, sandkassi og bú meðal annars. Boðið verður upp á ís, nammi og kaffi.
UMMÆLI