NTC

Opinn dagur í Háskólanum á Akureyri

Opinn dagur í Háskólanum á Akureyri

Opinn dagur verður haldinn í Háskólanum á Akureyri á morgun, 6. nóvember, klukkan 11:00-13:00. Þar gefst gestum og gangandi tækifæri á að kynna sér námsúrvalið í grunnnámi, og stúdentar og starfsfólk svara öllum helstu spurningum um lífið í HA.

Útskriftarárgangar frá Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra, Framhaldsskólanum á Húsavík, Framhaldsskólanum á Laugum, Menntaskólanum á Akureyri, Menntaskólanum á Egilsstöðum, Menntaskólanum á Tröllaskaga og Verkmenntaskólanum á Akureyri munu sækja HA heim á þessum tíma. Húsið er þó opið öllum sem hafa áhuga á því að kynna sér grunnnám háskólans.

Mikið virði í því að kynnast náminu frá fyrstu hendi

„Opnir dagar eru í höndum stúdentanna okkar. Þeir kynna námið á sínum forsendum og deila sinni reynslu og upplifun af lífinu í HA. Það er mikill auður í stúdentunum okkar sem eru alltaf boðnir og búnir til þess að fjölmenna á viðburði sem þessa og kynna háskólann sinn sem þau eru stolt af. Þá er gríðarlega mikið virði í því fyrir væntanlega umsækjendur að fá að kynnast náminu frá fyrstu hendi. Í Miðborg, hjarta háskólans, verða básar frá stoðþjónustunni og Hátíðarsalnum breytum við í líflegt sýningarsvæði þar sem hver námsleið verður með sinn bás. Við verðum einnig með skipulagðar gönguferðir um háskólasvæðið og þannig geta þátttakendur kynnst aðstöðunni í HA, sem er fyrsta flokks,“ segir Sólveig María Árnadóttir viðburðastjóri Opins dags.


Sólveig María Árnadóttir

Opinn dagur orðinn fastur liður í skólastarfi útskriftarnema

Þetta er í fyrsta skiptið sem háskólinn býður upp á einn Opinn dag í stað Opinna daga sem áður voru haldnir á tveimur dögum. „Von mín er sú að þessi breyting geri daginn enn markvissari. Ég hef átt í góðu samstarfi við námsráðgjafana í framhaldsskólunum sem sækja okkur heim á hverju ári og þetta er orðinn fastur liður í skólastarfi útskriftarnema. Ég man sjálf eftir því að hafa mætt á svona dag þegar ég var í Menntaskólanum á Akureyri. Síðan þá höfum við þróað og bætt fyrirkomulagið til muna. Þegar ég var í MA sat ég til dæmis langan fyrirlestur þar sem allar námsleiðir og stoðþjónusta fóru upp á svið með kynningu. Í dag eru allar námsleiðir með bása þar sem stúdentar í náminu segja frá og gefa innsýn inn í hvernig er að vera stúdent við HA. Reynslan okkar er sú að með þessum hætti eru kynningarnar mun markvissari og gestirnir okkar mun virkari í því að virkilega kynna sér það sem HA hefur upp á að bjóða. Eftir að viðburðinum lýkur skoðum við alltaf hvað gekk vel og hvað megi bæta. Í ár verðum við til dæmis með ratleik fyrir framhaldsskólanemana sem gerir þá vonandi enn virkari þátttakendur,“ segir Sólveig að lokum.

Að loknum kynningum verður boðið til pizzuveislu.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó