Opið bréf til forseta bæjarstjórnar AkureyrarMynd: Eining-Iðja.

Opið bréf til forseta bæjarstjórnar Akureyrar

Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju, skrifaði opið bréf til forseta bæjarstjórnar á dögunum sem birtist í Vikudegi og á heimasíðu félagsins. Kaffid.is birtir bréfið einnig:

Sæl Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórnar Akureyrar. 

Þetta opna bréf er sent ritstjóra Vikudags með ósk um birtingu í fyrsta tölublaði ársins. Bréfið verður birt sama dag á samfélagsmiðlum Einingar-Iðju.

Meirihluti bæjarstjórnar samþykkti á fundi sínum í desember s.l. álagningarprósentu fasteignagjalda fyrir árið 2020. Skemmst er frá því að segja að meirihlutinn ákvað að hafa prósentuhlutfallið óbreytt miðað við nýliðið ár, þ.e.a.s. 0,33% af fasteignamati. Í fyrri umræðu um fjárhagsáætlunina var gert ráð fyrir lækkun í 0,32%.

Þetta hefur það í för með sér að fasteignagjöldin á Akureyri hækka um 8,8% miðað við nýliðið ár, þar sem fasteignamat íbúða hækkaði töluvert á síðasta ári.

Ef litið er á álögur á íbúðarhúsnæði, hækka tekjur bæjarins úr 282 milljónum króna árið 2019 í 313 milljónir króna á þessu ári. Hækkunin á íbúðarhúsnæði er því samtals 31 milljón króna.

Tilmæli um að hækka gjaldskrár að hámarki um 2,5% eru hunsuð
Í tengslum við lífskjarasamningana sendi Samband íslenskra sveitarfélaga frá sér yfirlýsingu, þar sem sambandið mæltist til þess við sveitarfélögin að á árinu 2020 muni gjöld á þeirra vegum hækka um 2,5% að hámarki, en minna ef verðbólga er lægri.

Mörg sveitarfélög hafa ákveðið að sýna ábyrgð og halda aftur af hækkunum á öllum þeim gjaldskrám er snerta heimili landsins.

Akureyrarbær er eitt þeirra sveitarfélaga sem ekki fer að tilmælum Sambands íslenskra sveitarfélaga í þessum efnum og dregur þannig úr þeim ávinningi sem lífskjarasamningunum er ætlað að skila.

37% hækkun á nokkrum árum
Fasteignagjöld falla að sjálfsögðu undir gjaldskrár sveitarfélaga sem ákveðnar eru á ári hverju, rétt eins og leikskólagjöld og önnur gjöld.

Fasteignagjöld vega þungt í heimilisbókhaldi flestra og tölur sýna að þessi gjöld hafa hækkað mikið á Akureyri á undanförnum árum, langt umfram vísitölu. Fram kom á bæjarstjórnarfundinum í desember að fasteignagjöld á íbúð í fjölbýlishúsi í Lundahverfi hafi hækkað um 37% frá árinu 2016.

Eftir að hafa hlustað á umræðurnar í bæjarstjórn, er ljóst að rökstuðningur fyrir auknum fasteignagjöldum virðist einungis vera að auka tekjurnar, meðal annars til þess að draga úr hallarekstri á A-hluta bæjarsjóðs.

Hvers vegna, Halla Björk
Í ljósi þess að bæjarstjórnin virðist ætla að virða tilmæli Sambands íslenskra sveitarfélaga að vettugi, óska ég eftir svörum á þessum vettvangi við eftirfarandi spurningum.

  1. Hvers vegna ákvað bæjarstjórn að fara ekki að tilmælum Sambands íslenskra sveitarfélaga um að sveitarfélögin hækki gjaldskrár sínar 2,5% að hámarki?
  2. Hvers vegna var ákveðið á milli umræðna um fjárhagsáætlun að hætta við að lækka álagningarprósentuna?
  3. Fjölgun íbúa Akureyrar er hægari en á landsvísu, er líklegt að hærri fasteigagjöld laði að sér íbúa og fyrirtæki til bæjarins?
  4. Kemur til greina að draga þessa ákvörðun meirihluta bæjarstjórnar til baka og fara að tilmælum Sambands íslenskra sveitarfélaga?
  5. Hefur þú orðið vör við óánægju íbúa vegna þessarar ákvörðunar um að hækka tekjur bæjarins af fasteignagjöldum um 8,8%?
  6. Hefur þú orðið vör við ánægju vegna þessar ákvörðunar?

Með ósk um skýr svör við þessum tiltölulega einföldu og eðlilegu spurningum um 8,8% hækkun á fasteignagjöldum á Akureyri.

Með kveðju,
Björn Snæbjörnsson formaður Einingar-Iðju.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó