NTC

Opið allan sólarhringinn í Listasafninu á Jónsmessuhátíð

Listasafnið á Akureyri tekur þátt í Jónsmessuhátíð á Akureyri um helgina. Opið verður allan sólarhringinn, frítt verður inn í safnið og boðið upp á viðburði.

Fjölskylduleiðsögn og listasmiðja laugardaginn 23. júní kl. 11-12

Heiða Björk Vilhjálmsdóttir, fræðslufulltrúi, segir börnum og fullorðnum frá sýningu Anítu Hirlekar, Bleikur og grænn. Að lokinni leiðsögn er gestum boðið að búa til sitt eigið verk, innblásið af verkum Anítu. Safnkennsla og fræðsla fyrir börn og fullorðna í Listasafninu er styrkt sérstaklega af Norðurorku.

Leiðsögn um sýninguna Fullveldið endurskoðað laugardaginn 23. júní kl. 15-15:45

Arndís Bergsdóttir, safnafræðingur verður með leiðsögn um sýninguna Fullveldið endurskoðað. útisýningu sem sett er upp á átta völdum stöðum í miðbæ Akureyrar, í tilefni að aldarafmæli fullveldis Íslands. Alls eiga 10 ólíkir myndlistarmenn verk á sýningunni sem gerð eru sérstaklega fyrir sýninguna. Listamennirnir eru: Guðmundur Ármann Sigurjónsson, Gunnar Kr. Jónasson, Hrefna Harðardóttir, Jón Laxdal Halldórsson, Jónína Björg Helgadóttir, Karólína Baldvinsdóttir, Libia Castro og Ólafur Ólafsson, Rebekka Kühnis, Samúel Jóhannsson og Snorri Ásmundsson. Markmiðið með sýningunni er að sýna nýja hlið á stöðu fullveldisins á okkar tímum og fá áhorfendur til að velta fyrir sér hugmyndum, útfærslum og fjölbreyttum sjónarhornum því tengdu.

Leiðsögnin hefst kl. 15 við Listasafnið á Akureyri, Ketilhús og svo er gengið á milli verkanna. Leiðsögnin tekur um 45 mínútur.

Sýningin hlaut styrk úr sjóði aldarafmælis fullveldis Íslands.

Vasaljósaleiðsögn um sýningu Anítu Hirlekar, aðfaranótt sunnudags kl. 1-1:30

Klukkan 1 eftir miðnætti á aðfaranótt sunnudagsins 24. júní verður boðið upp á vasaljósaleiðsögn um sýningu Anítu Hirlekar Bleikur og grænn í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi. Hlynur Hallsson sýningarstjóri segir gestum frá sýningunni og einstaka verkum með tendruð vasaljós. Leiðsögnin er hluti af Jónsmessuhátíð á Akureyri. Það er opið alla nóttina í Listasafninu á Jónsmessuhátíð og aðgangur er ókeypis.

Þau sem vilja geta tekið með sér vasaljós en einnig er hægt að fá vasaljós lánuð á Listasafninu.

Sambíó

UMMÆLI