„Ómetanlegt að fá tækifæri til að vera hluti af þessum hóp“

„Ómetanlegt að fá tækifæri til að vera hluti af þessum hóp“

Kvennalið KA í blaki hefur átt mjög góðu gengi að fagna í vetur. Liðið er þegar orðið deildar- og bikarmeistari og getur tryggt sér Íslandsmeistaratitil næsta þriðjudag, 3.maí, með sigri á Aftureldingu.

KA hefur þegar unnið tvo leiki í úrslitaeinvíginu við Aftureldingu um Íslandsmeistaratitilinn en þrjá sigra þarf til að tryggja sér titilinn. KA hefur unnið báða leikina hingað til 3-0 og spilað frábærlega.

Gígja Guðnadóttir, fyrirliði KA, segir að stemningin í liðinu fyrir leikinn 3. maí sé gífurlega góð. Hún hvetur Akureyringa til þess að fjölmenna á leikinn en það verður frítt inn á leikinn svo nú kjörið tækifæri að mæta og sjá toppslag í blakinu þar sem KA getur tryggt sér Íslandsmeistaratitil.

„Við erum allar í toppstandi, fyrir utan mig reyndar, og klárar í slaginn,“ segir Gígja, sem er að glíma við meiðsli um þessar mundir, í spjalli við Kaffið.is.

Það hefur verið ótrúlega gaman að spila með liðinu í vetur. Það voru töluverðar breytingar á liðinu frá því í fyrra en við náðum vel saman sem hópur strax í upphafi tímabilsins. Við erum með fullkomna blöndu af ungum og efnilegum leikmönnum í bland við reynslu mikla leikmenn sem gefur liðinu svo skemmtilegan karakter.“

Gígja segir að tímabilið í ár hafi verið stórkostlegt og mögulega það besta á hennar ferli hingað til.

„Það hefur verið mikil stígandi í liðinu og þá helst núna eftir áramót. Það hafa allir leikmenn liðsins verið að taka miklum bætingum og liðið er að toppa á hárréttum tíma. Ég hef líka aldrei upplifað eins góða liðsheild og ríkir í liðinu og það hefur svo sannarlega skilað sér. Það er ómetanlegt að fá tækifæri til að vera hluti af þessum hóp.“

Liðið hefur þegar fagnað tveimur titlum á tímabilinu. Gígja segir að það hafi verið ótrúlega gaman að vinna bikara en að bikarhelgin þegar liðið tryggði sér Bikarmeistarartitilinn hafi staðið upp úr.

„Við urðum Bikarmeistarar eftir háspennu, fimm hrinu leik. Það var rosalegt. Persónulega var líka ótrúlega gaman að vinna deildarmeistaratitilinn þar sem það er titill sem þú vinnur jafn óðum allt tímabilið.“

Næsti leikur í einvíginu er í KA-Heimilinu þriðjudaginn 3. maí næstkomandi klukkan 19:00 og eins og áður segir getur lið KA tryggt sér bikar þrennu með sigri.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó