Snjóbretta- og tónlistarhátíðin AK Extreme verður haldin á Akureyri 5.-8. apríl næstkomandi. Hátíðin var haldin í fyrsta skipti árið 2002 en hefur stækkað umtalsvert síðan þá. Upphaflega var hátíðin ætluð sem snjóbrettahátíð en er nú einnig orðin ein vinsælasta tónlistarhátíð bæjarins.
8.000 manns mættu og fylgdust með gámastökkinu í fyrra
Hátíðin fer fram víðsvegar um bæinn og í Hlíðarfjalli. Opnunarpartý hátíðarinnar verður haldið á Græna hattinum 5. apríl. Í Gilinu fer svo framhápunktur hátíðarinnar, Eimskips-gámastökkið,þar sem færustu snjóbrettamenn og vélsleðamenn Íslands sýna listir sínar.
Samkvæmt tölum frá lögreglunni á Akureyri voru um það bil 8.000 manns sem söfnuðust saman í gilinu í fyrra til að fylgjast með gámastökkinu. Þar kepptu 20 snjóbrettamenn um að komast í 7 manna úrslit sem endað með því að Zoltan Strcula frá Slóvakíu bar sigur úr býtum.
Fjórir snjósleðakappar tókust á um Eimskips-bikarinn en Hákon Gunnarsson, 19 ára drengur frá Akureyri, hreppti fyrsta sætið.
Færður úr smíðum í partýskipulag
Tónlistarmaðurinn Gauti Þeyr, þekktur sem Emmsjé Gauti, er einn af skipuleggjendum hátíðarinnar í ár en hann hefur verið hluti af hátíð inni síðan árið 2012.
„Þá var ég settur í smíðavinnu í Gilinu en þegar strákarnir föttuðu að ég var ekki sá besti í höndunum var ég færður til og hjálpaði til við partýið. Ég var svo æstur í að vera með að strákarnir einfaldlega neyddust til að taka mig inn í teymið stuttu síðar og ég hef verið hluti af kjarnahópnum síðan þá. Við erum allir miklir vinir og þó þetta sé stressandi og krefjandi starf þá eigum við það allir sameiginlegt að AK Extreme á sérstakan part í okkar hjörtum,“ segir Emmsjé Gauti.
Tónleikadagskrá hefst með látum á fimmtudeginum
Gauti segir að hátíðin í ár verði að mestu leyti með sama fyrirkomulagi og undanfarin ár. Snjóbrettakeppnirnar haldi sínu sniði en smá breyting sé á tónleikahaldi.
„Við byrjum í fjallinu á fimmtudeginum, á föstudaginn er svo Burn Jibbið þar sem snjóbrettakeppendur renna sér á handriðum og boxum í gilinu. Á laugardeginum er svo Eimskips gámastökkið. Við höfum breytt nokkrum smáatriðum til þess að betrumbæta og stækka hátíðina. Varðandi tónleikahliðina þá höfum við fært fimmtudagspartýið yfir á Græna hattinn þar sem hljómsveitinar Dr.Spock og Uné Misére hefja tónleikadagskrá AK Extreme með látum, selt verður inn á Græna hattinn sér og svo verður hægt að kaupa helgarpassa í Sjallann eins og síðustu ár.“
Einstök hátíð á heimsmælikvarða
Gauti Þeyr segir AK Extreme vera einstaka hátíð þótt leitað sé út fyrir landssteinana og að fólk úr öllum áttum hafi mætt í gegnum tíðina. Hann segist finna fyrir auknum áhuga á hátíðinni með hverju árinu sem líður.
„Það er einhver sérstök orka sem myndast á Akureyri yfir hátíðina, hún er eiginlega ólýsanleg og þeir sem hafa komið á hana vita nákvæmlega hvað ég er að tala um.“
„Það koma mörg þúsund manns að horfa á Eimskips gámastökkið á hverju ári og það mun ekki breytast í ár. Við höfum alltaf selt upp í tónlistarpartýin svo ég mæli með að fólk fari að huga að því að ná sér í miða í forsölu.“
Fjöldi tónlistarmanna kemur fram á hátíðinni en þar má meðal annars nefna JóaPé og Króla, Aron Can, Floni og Young Karin.
UMMÆLI