Öllum grunuðum einstaklingum vegna alvarlegrar líkamsárásar og frelsissviptingar sleppt úr gæsluvarðhaldi


Eins og hefur verið fjallað um á Kaffinu voru fjórir menn í gæsluvarðhaldi hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra grunaðir um aðild að alvarlegri líkamsárás og frelsissviptingu manns á fertugsaldri. DV greindi ítarlega frá málinu á föstudag þar sem mennirnir voru nafngreindir. Samkvæmt heimildum DV voru það þeir Daníel Christensen, Ísak Logi Bjarnason og Sindri Snær Stefánsson sem sátu í gæsluvarðhaldi en sá fjórði hefur ekki verið nafngreindur.

Alls voru sex einstaklingar handteknir að Strandgötu 17, þegar lögreglan braust inn um miðjan dag, grunaðir um að hafa haldið manni á fertugsaldri nauðugum og beitt hann alvarlegu líkamlegu ofbeldi. Samkvæmt heimildum DV var fórnarlambið meðal annars lamið með hamri í andlitið auk þess sem viðkomandi var með slæma áverka á fingrum eftir ótilgreint áhald.

Öllum sleppt úr gæsluvarðhaldi 
Samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni á Norðurlandi eystra í gær var öllum einstaklingum sleppt úr gæsluvarðhaldi um helgina, þremur á föstudagskvöldið og þeim síðasta í gær, laugardag.
Þá segir í tilkynningu lögreglu að yfirheyrslur hafi gefið skýrari mynd af því sem átti sér stað.
,,Ekki var talið að rannsóknarhagsmunir krefðust þess lengur að halda þeim, þar sem yfirheyrslur hafa gefið skýrari mynd af því sem átti sér stað. Rannsóknin heldur áfram og næstu skref snúa að þeim sönnunargögnum sem aflað hefur verið,“ segir í tilkynningunni.

 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó