Gæludýr.is

Öll börnin sem bíða eftir frístundarstyrk

Öll börnin sem bíða eftir frístundarstyrk

Ásgeir Ólafsson skrifar

Annað barna minna er á þriðja ári. Samkvæmt Heilsuveru á það að geta  sinnt grófþroska sínum á eftirfarandi máta;  Hoppað jafnfætis, hlaupið, klifrað og dansað.  Gengið afturábak, sparkað í bolta, kastað bolta og gripið stóran bolta. Staðið á tám og staðið á öðrum fæti í eina sekúndu eða lengur.

Hann getur gert allt þetta. Frábært!

Systir hans er á fimmta ári.  Samkvæmt sömu stuðlum skal hún geta gert eftirfarandi; Klætt sig hjálparlaust. Gripið lítinn bolta. Kastað bolta, staðið á tám og hoppað á öðrum fæti. Gengið eftir línu og gengið áfram á hæl og tá í hænufetum.  Auk þessa þarf hún að geta gert allt sem yngri bróðir hennar getur.

Allt þetta kann hún. Sem er líka frábært!

Það eru nokkur fyrirtæki sem hafa hjálpað börnunum mínum að styrkjast enn frekar í þessum ofangreindu þáttum Heilsuveru.

Ef við byrjum á stelpunni. Hún æfði dans í hópi sem auglýsti námskeið til hennar og jafnaldra hennar. Að dansa á laugardagsmorgnum þá ekki orðin þriggja ára gömul.  Æðislegt. Við bókuðum hana strax.  Hún lærði þar að ganga á tám og hæl og labba afturábak. Einnig þá lærði hún að dansa. Hún lærði í sumar að sparka í bolta á skipulögðum æfingum hjá KA.

Strákurinn byrjaði að æfa fimleika í vetur og þar eru stundaðar alveg magnaðar æfingar einu sinni í viku fyrir hans aldurshóp. Hann er eins og ég sagði á þriðja ári.  Þar lærir hann að hoppa og hoppa á öðrum fæti.  Hann lærir að ganga á línu og halda jafnvægi, standa á tám og hoppa jafnfætis svo eitthvað sé nefnt úr lista Heilsuveru.  Alveg frábært starf er stundað hjá þessum félögum hér í bæ sem við höfum kynnst.  Fimleikafélagi Akureyrar, KA og ÞÓR og Dansstúdíó Alice.

Heilsuvera gerir kröfur á að barnið mitt kunni að gera hluti sem þau auðvitað læra heima hjá sér, í leikskólanum og í leik með félögum.

En.  Þarna úti eru félög sem kenna börnunum mínum að gera allt þetta enn betur og þau stuðla öll að einu sem er ekki síður mikilvægt.  Því félagslega. Börnin mín mæta með hökuna fasta við búk af feimni í fyrsta tíma en fara skömmu síðar glöð í bragði, kveðjandi nýju vinina sína og þjálfarana með high five og lófaklappi hlakkandi til næsta tíma þegar þau setjast í bílinn. Brosið fer ekki af þeim í langan tíma eftir tímann. Þetta er mjög mikilvægt fyrir þau að upplifa og dýrmætt fyrir okkur foreldrana að sjá þessa gleði sem skín úr andliti þeirra eftir hvern tíma.

Þau eru tveggja og hálfs og fjögurra og hálfs árs gömul.  Þegar heim er komið eftir æfingu eru þau afslöppuð. Þau hafa fengið að stunda mikilvæga hreyfingu og hitt nýja krakka og þjálfara og kynnst þeim.

Dásamlegt!

En börnin mín og börn allra hinna sem eru með þeim í hóp eru samt bara ekki nógu gömul.  Þeim er hólfaskipt hjá ágætum bæjarfélögum okkar um allt land og allt of mörg börn, sem eru mikilvæg í samfélaginu okkar,  geta ekki stundað þessa mikilvægu hreyfingu og virkjað betur þennan mikilvæga félagslega þroska sökum þess að þetta kostar helling af peningum.    Þau þurfa sum þeirra og allt of mörg að bíða.  

Ég þekki mörg dæmi hér í bæ að foreldrar geti ekki leyft börnum sínum að stunda þessa hreyfingu af því að peningarnir eru ekki til.  Og þetta er alls ekki ódýrt og á ekki að vera.  Ég er alls ekki að setja út á hvað þetta kostar. Félögin þurfa öll að fá sitt til að mæta fjárútlátum á t.d. tækjum, þjálfarkostnaði, aðstöðu, hita, rafmagni og öllu sem fylgir.

Ég er að skrifa þennan pistil um allt annað sem er mikilvægara.

Ég er að skrifa þennan pistil vegna þess að mitt mat byggir á að öll erum við undir sömu sæng. Líka þegar kemur að peningum og styrkjum og er ég svo mikið að vona að þetta með sex ára takmarkið sé einhver gömul regla sem sett var á sínum tíma og jafnvel hugsunarvilla um að hlutir hafi ekki breyst síðan þá. Með auknum rannsóknunum sem sérfræðingar okkar hafa skrifað um.   Sem dæmi mikilvægi hreyfingar, fínhreyfinga og grófþroska barna okkar sem eykst til muna með að byrja vel fyrir sex ára aldur að stunda æfingar.  

Þeir sem geta borgað gjaldið sjá ekki eftir krónu. Þeir sem geta ekki borgað sjá eftir því að geta ekki veitt börnum sínum það sama og hin börnin fá. Það er erfitt. Það þarf að ígrunda vel hvað frístundarstyrkur er. Það er fyrir mér verkfæri og hugmynd til að aðstoða foreldra að greiða það sem þarf svo börn þeirra geti gert það sama og öll önnur börn á sama aldri.  Það á sér augljóslega stað einhver skrítin mismunun sem ætti ekki að sjást þegar auglýstir eru viðburðir fyrir börn undir sex ára.

Af félögum sem styrkt eru af bæjarfélögunum öllum.   Annaðhvort ætti þetta að vera þannig að ekkert félaganna ætti að geta boðið upp á leikjaskóla, dans, fimleika eða einhverskonar afþreygingu fyrir börn undir sex ára svo allir séu jafnir og öll börnin þurfi að bíða jafn lengi.

Eða,  sem er mikið frekar, að lækka aldurinn á frístundarstyrkjum.  Jólasveinnin gefur jafnt í skóinn til allra barna.

Hann mismunar engu barni eftir aldri.

Garðabær, Árborg og Mosfellsbær bjóða börnum 5 -17 ára sama frístundarsstyrk.  Það þýðir að börn í Mosó, á Selfossi og í Garðabæ geta byrjað ári fyrr en til dæmis börn á Akureyri. Kostuð af bæjarfélaginu sínu með frístundarstyrk.  Þessi börn í þessum bæjarfélögum verða sterkari þegar þau eru orðin sex ára.  

Ekki einungis í íþróttinni sem þau stunda heldur einnig líkamlega og félagslega.   

Er ekki eilítið svindl að jafnaldri dóttur minnar geti ekki byrjað að æfa fótbolta fyrr en næstum þremur árum eftir henni af því að peningar eru ekki til fyrir æfingagjöldum?  Veist þú hvað getumunur getur orðið mikill á þessum þremur árum? Nú kinka allir sem koma nálægt íþróttum kollinum sínum þessu til samþykkis.  Sum börn og allt of mörg þurfa að horfa á jafnaldra sína út um gluggann af heimilinu eða standa fyrir utan völlinn og horfa á æfingar sem er enn verra.

Þau geta ekki byrjað.

Þau þurfa að bíða.  

Þau skilja ekki af hverju það er svoleiðis og foreldrarnir standa uppiskroppa með afsakanir.

Þeir fá ekki í skóinn eins og hinir.

Það eru til fleiri rannsóknir sem sýna það að brottfall eykst úr íþróttum á bilinu 14 til 15 ára hjá stúlkum og einu til tveimur árum síðar hjá drengjum.  Vitið þið hverjir hætta og hverjir halda áfram?

Það eru þeir sem eru bestir sem halda yfirleitt áfram og þeir sem hætta eru þeir sem hafa reynt hvað þeir geta öll þessi ár að mæta þeim í tækni, betri skilning á íþróttinni og líkamlegum styrk þeirra sem byrjuðu þremur árum fyrr að æfa.

Nú kinka sömu aðilar aftur kolli.  

Ég skora á bæjarfélagið mitt Akureyri að brjóta blað í sögunni.  Að vera fyrst til að hrinda þessu í framkvæmd að leyfa þannig öllum börnum að eiga jöfn tækifæri.

Ekki láta sum börnin sín bíða.

Frístundarstyrkur ætti að vera veittur öllum börnum sem kost eiga að stunda æfingar, leik eða dans hjá  félögum sem bærinn styrkir fjárhagslega árlega og sem eru að auglýsa námskeið og æfingar fyrir aldurshópinn undir sex ára.  

Að lokum.

Ef þetta snýr að peningum þá getum við skoðað heildina. Börn sem byrja fyrr að stunda æfingar og kynnast sínum bestu vinum í íþróttinni og stunda hana til brottfalls þar til þau finna sér eitthvað annað að gera eiga það sameiginlegt að eiga betri ævidaga og verða hamingjusamari sé vitnað í marga fagaðila sem skrifað hafa um það skýrslur og meistaraverkefni.   

Eru það ekki nógu skýr og rík rök?

Akureyri.  Við getum líka farið Mosóleiðina og greitt helming (fullur styrkur er 52.000 eftir 6 ára aldur) eða 26.000 til barna sem eru 5 ára.

En þá erum við að gera ekkert nýtt. Þá erum við að elta önnur bæjarfélög.

Fjölskyldubærinn Akureyri. Öll lífsins gæði.  

Gerum enn betur.

Verum fyrst til.  Látið börnin ykkar, þessa mikilvægu samfélagsþegna, verðandi skattgreiðendur og útsvarsgreiðendur allt niður í þriggja ára aldur hafa helming fulls styrks fram að 6 ára aldri þegar styrkur verður þá fullu greiddur.

Það myndi hjálpa einhverjum fjölskyldum en aldrei öllum. En það væri risa stórt skref.

En ekki það sem ég er að biðja um með þessum skrifum mínum.

Enn er smá lykt af mismunun og fleygði ég fram þessari hugmynd einungis til að fá hina samþykkta. 

Auðvitað eiga öll börn að fá jafn mikið.  

Þannig mismunar maður ekki neinum.

Það á aldrei að mismuna börnum. 

Það gerir ekki jólasveinninn og það gerum við ekki heldur.

Setjum frístundartakmarkið niður í þriggja ára.

Nú er stóra spurningin.

Hver kinkar kollinum fyrstur?

Höfundur er faðir og starfandi markþjálfi.


Vilt þú birta grein á Kaffið.is? Sendu á okkur með því að smella hér

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó