NTC

Olían verður bara brennd einu sinni

Guðmundur Haukur Sigurðarson skrifar

Ég var að hlusta á alveg óborganlegt viðtal við mann frá FÍB á Bylgjunni um hvað rafhlöður væru ómögulegar í bílum og gamli díseljeppinn umhverfislega æðislegur. Það er svo skrítið að þegar ríkið, sveitarfélög og fjölmörg fyrirtæki eru búin að skrifa undir bindandi samninga og búin og setja sér metnaðarfull markmið er alltaf verið að kynda undir efasemdum. Stefnan í þessu máli er skýr (Parísarsamningurinn), markmiðin skýr og nú er bara að fara á fullt í þetta verkefni og innleiða lausnirnar eða ætlum við bara alltaf að færa eða ekki færa flugvelli?

Á undanförnum áratugum höfum við haft fyrir því og staðið okkur afburðavel í miklum umbótum á samfélaginu á mörgum sviðum. Getur t.d. einhver ímyndað sér Ísland þar sem reykingar eru leyfðar um allt, bjór bannaður, enginn kvóti á fiskveiðum, aðeins konur taka fæðingarorlof og olía notuð til að kynda húsin? Held ekki. Það sama gildir í þessu; við höfum ákveðið að taka ekki sénsinn á því að líta til baka og segja „æi við hefðum átt að banna reykingar miklu fyrr.“ Það er ekki einkamál að menga fyrir öðrum, hvorki með því að kveikja í sígarettu eða með því að nota olíu á bíl.

Og svona ef einhverjir efast enn um endurvinnslumöguleika eins og t.d. á verðmætum efnum í rafhlöðum þá vil ég benda á gott myndband um Apple-vélmennið Liam. Endilega finnið það á netinu, það er nefnilega hægt að að endurnýta og endurvinna rafhlöður en olían verður bara brennd einu sinni.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó