Handboltafólkið Ólafur Gústafsson og Rut Jónsdóttir hafa framlengt samning sinn við KA og KA/Þór um tvö ár og munu leika með liðunum út tímabilið 2023-2024. Þau hafa bæði leikið lykilhlutverk í sínum liðum á Akureyri frá komu þeirra sumarið 2020.
Í tilkynningu frá KA segir að þetta séu gífurlega jákvæðar fréttir. „Það er áfram mikill hugur í handboltanum hjá okkur og er það algjört lykilskref að halda þeim Óla og Rut innan okkar raða. Ekki nóg með að hafa leikið afar vel með KA og KA/Þór hafa þau komið sterk inn í félagsstarfið hjá okkur og gefa mikið af sér til yngri iðkenda.“
Rut er alinn upp hjá HK og Ólafur hjá FH. Þau fluttu til Akureyrar sumarið 2020 frá Danmörku. Þau eru nú samningsbundin út tímabilið 2024.
Rut sem er 31 árs gömul fór fyrir liði KA/Þórs á síðustu leiktíð þar sem liðið vann allt sem hægt var að vinna og var hún valin handknattleikskona ársins árið 2021 auk þess sem hún var kjörin íþróttakona KA. Þá er hún fyrirliði íslenska landsliðsins þar sem hún hefur leikið yfir hundrað landsleiki.
Ólafur Gústafsson er 32 ára gamall og er á meðal markahæstu leikmanna KA á núverandi tímabili. Auk þess að láta til sín taka í sóknarleiknum er hann einn besti varnarmaður landsins. Hann hefur leikið 22 landsleiki fyrir Íslands hönd en hann tók þátt á HM 2013, EM 2018 og HM 2019.
UMMÆLI