Ólafur Egill leikstýrir Sjeikspír eins og hann leggur sig

Ólafur Egill Egilsson hefur verið ráðinn til að leikstýra verkinu Sjeikspír eins og hann leggur sig hjá Leikfélagi Akureyrar. Ólafur hefur getið sér gott orð sem leikstjóri, leikari og handritshöfundur frá því hann útskrifaðist frá leiklistardeild Listaháskóla Íslands vorið 2002.

Nú síðast skrifaði Ólafur, ásamt Gísla Erni Garðarssyni, handrit söngleiksins Elly sem notið hefur fádæma vinsælda auk þess sem hann leikstýrði Kartöfluætunum eftir Tyrfing Tyrfingsson og eigin leikgerð á verkinu Brot úr hjónabandi en báðar uppsetningar hafa hlotið einróma lof gagnrýnenda og leikhúsgesta.

Þetta verða ekki fyrstu kynni Akureyringa af Ólafi, þar sem hann lék þjófaforingjann Fagin í eftirminnilegri uppfærslu Leikfélags Akureyrar á Óliver! skömmu eftir útskrift frá LHÍ.

Aðspurður segist Ólafur spenntur fyrir því að snúa aftur í Samkomuhúsið á Akureyri:

„Mér þykir afar vænt um Leikfélag Akureyrar og Samkomuhúsið, enda á ég frábærar minningar þaðan og hlakka mikið til þess að koma þessu brjálaða og bráðskemmtilega verki á fjalirnar í samstarfi við leikhópinn og allt það góða fólk sem hér starfar.“

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó