NTC

Ókunnugir vinir í vestri

Ivalu Birna Falck-Petersen skrifar:

Grænlendingar eru okkar næstu nágrannar landfræðilega séð og því kemur verulega á óvart hversu lítið við þekkjum í raun til bæði landsins og menningarinnar. Flest erum við þó með staðreyndirnar á hreinu, þ.e. við vitum að Grænland er stærsta eyja þessarar plánetu og er jafn framt strjálbýlasta land í heimi, en hver er raunmyndin af Grænlandi frá okkar augum séð?

Þær upplifanir sem landið og fólkið hefur uppá að bjóða eru jafn margvíslegar og þær eru sérstakar. Því ætti Grænland að fá tækifæri til að teljast með til mögulegra áfangastaða þegar ferðalangar hyggjast leita nýrra ævintýra. Ævintýri á borð við hundasleða- og snjósleðaferðir í ísköldu heimskautsloftinu á milli ísilagðra fjallgarða, siglingar meðal náhvala og rostunga milli jökla sem hafa bráðnað frá hinni stóru íshellu, bretta- og skíðaferðir niður snæviþaktar fjallshlíðar, fjallgöngur í óaðfinnanlegu landslagi eða einfaldlega njóta kaffisopa meðal heimamanna svo dæmi séu nefnd.

Air Iceland Connect er annað af tveimur flugfélögum sem flýgur milli Grænlands og Íslands, nánar tiltekið býður Air Iceland Connect uppá mjög góða þjónustu og heldur úti flugi til sex mismunandi áfangastaða víðsvegar um Grænland, en hitt flugfélagið er Air Greenland sem flýgur einungis á milli Nuuk og Keflavíkur. Margir hugsa eflaust að sú flugþjónusta sem nú þegar er til staðar sé yfirdrifin nóg og fullnægi flestum þeim ferðalöngum sem hyggjast sækja landið heim, en stærsti ókosturinn við þessa annars frábæru og ósjálfsögðu þjónustu er kostnaðurinn við hvern flugmiða. Flest í þessum heimi ræðst jú fyrst og fremst af framboði og eftirspurn og því má í raun telja ‘‘eðlilegt‘‘ að einn flugmiði fram og til baka kosti á bilinu 80.000 kr. – 120.000 kr. Öll getum við þó verið sammála um að þessi upphæð nái engri átt þegar hún er borin saman við verð á flugmiðum til annarra áfangastaða bæði innan og utan Evrópu og er hreint út sagt óásættanleg.

Spurningar og vangaveltur á borð við heilbrigða samkeppni og jafnvel samfélagsleg ábyrgð eru mér ofarlegi í huga í þessum skrifum, en ég velti því einnig fyrir mér hvort ekki sé hægt að líta á reikningsdæmið frá annari hlið og skapa eftirspurn með framboði?

Í þessum skrifuðu orðum er verið að vinna að því að lengja flugbrautirnar í Nuuk og í Ilulissat, bær á vesturströnd Grænlands, svo mögulegt sé fyrir stærri flugvélar að lenda þar. Að því sögðu langar mig að skora á Skúla Mogensen, framkvæmdastjóra WOW air, að íhuga þann kost að bæta Grænlandi við einn af þeim áfangastöðum sem flugfélagið getur boðið uppá í náinni framtíð. Hér er vert að nefna að WOW air hefur á undanförnum mánuðum bætt við talsvert af nýjum áfangastöðum bæði innan Evrópu og í Norður – Ameríku. Þar af leiðandi væri ekkert því til fyrirstöðu að bæta Nuuk við í þá flóru því þegar öllu er á botninn hvolft þá er leiðin til þessarar óaðfinnanlegu ️náttúruperlu ekkert nema greið og ólýsanlega spennandi!

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó