NTC

„Óháð afl sem setur bæinn í fyrsta sæti“

„Óháð afl sem setur bæinn í fyrsta sæti“

Níu flokkar bjóða fram í bæjarstjórnarkosningum á Akureyri sem fara fram 14. maí næstkomandi. Á næstu dögum munu oddvitar flokkanna segja frá helstu stefnumálum á Kaffið.is ásamt því að svara spurningum um ákveðin hitamál úr bæjarmálaumræðunni undanfarin ár.

Að þessu sinni situr Gunnar Líndal Sigurðsson, oddviti L-listans á Akureyri fyrir svörum, og segir okkur frá helstu stefnumálum flokksins

Sjá einnig:

Snorri Ásmundsson – Kattaframboðið

Hilda Jana Gísladóttir – Samfylkingin

Hrafndís Bára Einarsdóttir – Píratar

Sunna Hlín Jóhannesdóttir – Framsókn


Hver eru ykkar helstu stefnumál fyrir komandi kosningar?

Á Akureyri spili uppbygging, sjálfbærni og fjölskylduvænt umhverfi saman á einstakan hátt.

Grípum tækifærin sem nú gefast og byggjum bæinn hraðar upp en áður með því að stórauka lóðaframboð og bjóða nýja íbúa velkomna. Hraðari uppbyggingu fylgja auknar tekjur, sem við viljum nýta í aukna þjónustu. Með því að setja Akureyri í fyrsta sæti gerum við sveitarfélagið að eftirsóknarverðasta stað landsins að búa á, þar sem áhersla er lögð á jöfn tækifæri og mannréttindi allra.

Akureyrarbær á  stöðugt að sækja fram af metnaði í bæði umhverfis- og samgöngumálum. Akureyri á að vera í forystu þegar kemur að orkuskiptum í samgöngum. Við viljum halda áfram að vinna að hugmyndum um sjálfbæra þróun og innleiða metnaðarfulla umhverfis- og loftlagsstefnu sveitarfélagsins.

 Til að þetta takist þarf að að virkja alla Akureyringa – óháð hvar þeir standa í landsmálapólitíkinni – og hjálpa góðum bæ að verða enn betri.

Hvaða aðgerðir stefnið þið á ef að þið komist í bæjarstjórn?

Nokkur dæmi:

– Auka lóðaframboð svo hægt sé að byggja hér að minnsta kosti 350 nýjar íbúðir á ári.


– Tryggja og leysa til frambúðar að öll 12 mánaða börn komist inn á leikskóla.

 
– Koma á frístundavagni í samstarfi við skóla, íþróttafélög og aðrar tómstundir.

 
– Taka áfram  „græn skref“.


– Koma á frístundastyrk fyrir eldri borgara – aldursvænt samfélag.


– Setja á fót starfsstöðvar fyrir störf án staðsetningar.

– Efla nýsköpun og frumkvöðlastarf.

– Klára fyrirhugaða uppbyggingu á íþróttasvæði KA og gera samning um uppbyggingu á Þórssvæðinu.


– Styðja við með beinum hætti uppbyggingu á reglulegu millilandaflugi frá Akureyri allt árið um kring. 


– Draga úr svifryki með öllum tiltækum ráðum.


– Efla menningu og listir og tengja betur inn í skólastarf.

– Byggja þjónustuhús í Hlíðarfjalli í samvinnu við ríki og einkaaðila og færa vetraraðstöðu GA upp á Jaðar.


– Tryggja aðgengi almennings að Glerárlaug og fara í staðarvalsgreiningu fyrir nýja 50 metra innilaug.


– Akureyri verði snyrtilegasti og fallegasti bær landsins.

– Styðja betur við starfsfólk skóla og útskrifa skapandi, lífsglaða og sjálfsörugga nemendur.


– Tryggja áfram ábyrga fjármálastjórnun og sjálfbærni í rekstri.


– Tryggja að fólki með fötlun og fjölskyldum þeirra standi til boða fjölbreytt búsetu- og þjónustuúrræði. 


– Markaðssetja Akureyri, Hrísey og Grímsey sem ákjósanlega staði til þess að búa á.

Hver er stefna ykkar þegar kemur að lausagöngu katta?

Lausaganga katta er viðkvæmt og umdeilt mál. Við viljum ganga ákveðnar fram í að framfylgja gildandi reglum og halda samtali við bæjarbúa áfram til þess að þróa reglurnar á skynsamlegan hátt næstu ár.

Hver er ykkar stefna í skipulagsmálum á Akureyri?

Við viljum setja aukinn kraft í skipulagsmálin og auka lóðaframboð svo hægt sé að byggja hér að minnsta kosti 350 nýjar íbúðir á ári í miklu samráði við íbúa bæjarins og tryggja fjölbreytt húsnæði fyrir alla. Stuðla að heildrænu skipulagi bæjarhluta, mannvænu og heilsusamlegu þéttbýli.

Við viljum byggja upp fallegan, sólríkan og grænan miðbæ með austur vestur ása.  Við viljum miðbæ með blómstrandi mannlífi sem dregur til sín fólk og fyrirtæki.

Við viljum koma á fót sjóði sem stendur undir uppkaupum á eignum vegna skipulags.

Hvað Tónatröð varðar vill L-listinn byggja á því svæði. Upp hafa komið nýjar hliðar á málinu sem tengjast áformum sjúkrahússins og andstöðu Minjastofnunnar við flutning eldra húss og þetta leiðir óhjákvæmilega til endurskoðunar.

Á Oddeyri eru tækifærin hvað mest til þess að endurskapa og byggja upp glæsilegt hverfi með mikla sögu og fallegum húsum. Þess vegna ætti að gera þar kröfur um útlit nýrra húsa. Segja má að Eyrin sé á besta byggingarlandi bæjarins og uppbygging Eyrarinnar styður við uppbyggingu miðbæjarins og öfugt..

Hver er stefna ykkar í uppbyggingu íþróttamannvirkja á Akureyri? 

Við í L-listanum teljum mikilvægt að halda áfram að byggja upp aðstöðu til íþróttaiðkunar á Akureyri. Við viljum klára uppbyggingu á íþróttasvæði KA á kjörtímabilinu og gera samning um uppbyggingu á Þórssvæðinu sem verður aðkallandi vegna  uppbyggingar tveggja nýrra hverfa.

Við viljum efla Glerárlaug og að fara í staðarvalsgreiningu fyrir nýja 50 metra innisundlaug. Þá teljum við skynsamlegt að færa vetraraðstöðu Golfklúbbsins upp á Jaðar.

Einn helsti segull Akureyrar í vetrarferðarþjónustu er Hlíðarfjall og þar viljum við byggja þjónustuhús í samvinnu við ríki og einkaaðila.

Hver er stefna ykkar þegar kemur að göngugötunni í miðbænum?

„Göngugatan“ er aðalgata miðbæjarins og á að vera ásamt Ráðhústorgi hjarta mannlífs íbúa og ferðamanna á Akureyi. Við viljum halda áfram að vinna að því markmiði að gera miðbæinn meira aðlaðandi og að sumarlokanir séu í þágu þessara markmiða.

Hver er stefna ykkar þegar kemur að sölu áfengis í Hlíðarfjalli?

Við erum frjálslynd í þessum málum. Við teljum að sala áfengis á veitingastað í Hlíðarfjalli hvetji ekki til óhófs í neyslu áfengis. Þá teljum við að bann við áfengissölu á veitingarstað sem rekinn er í Hlíðarfjalli komi alls ekki í veg fyrir áfengisneyslu á svæðinu.

Af hverju ættu Akureyringar að kjósa flokkinn?

L-listinn er stjórnmálaafl sem hefur eingöngu hagsmuni bæjarins og bæjarbúa að leiðarljósi. Hann hefur engin hagsmunatengsl við stjórnmálaöfl á landsvísu og er því fyrst og fremst hópur af öflugu fólki sem setur bæjarfélagið í fyrsta sæti.

Styrkur L-listans liggur í krafmiklu nýju fólki – stutt af reynsluboltum fyrri ára, sem og því að virkja gott fólk til góðra verka.

Kjósendur verða að vita hvað frambjóðendur hyggjast fyrir. Við í L-listanum höfum sett fram skýra stefnumörkun í helstu málaflokkum. Við erum bjartsýn og jákvæð og sjáum mörg tækifæri til að gera Akureyri að enn betri bæ og auka lífsgæði bæjarbúa.

Stjórnmálamenn starfa í umboði kjósenda og þurfa að rísa undir því trausti sem þeim er sýnt. Við teljum að verk L-listans á kjörtímabilinu sýni að okkur er treystandi. Við leggjum þau, stefnumál framtíðar og okkur sjálf í dóm bæjarbúa og biðjum um traust til að halda áfram á sömu braut

Sambíó

UMMÆLI