NTC

Öflugra sjúkrahús – Betri heilbrigðisþjónusta

Öflugra sjúkrahús – Betri heilbrigðisþjónusta

Ingibjörg Isaksen skrifar:

Sjúkrahúsið á Akureyri gegnir mikilvægu hlutverki á landsbyggðinni, þar er veitt almenn og sérhæfð heilbrigðisþjónusta með áherslu á bráðaþjónustu og helstu sérgreinameðferðir. Sjúkrahúsið er annað tveggja sérgreina-sjúkrahúsa landsins og gegnir lykilhlutverki í almannavörnum. Þar hefur undanfarin ár verið lögð aukin áhersla á kennslu og rannsóknir í heilbrigðisvísindum. Á Sjúkrahúsinu á Akureyri er starfandi deild mennta og vísinda sem sér um skipulag, umsjón og eftirlit með því sem lýtur að menntun og vísindum þvert á allar starfseiningar sjúkrahússins. Á sama tíma og íslenskt heilbrigðiskerfi stendur frammi fyrir alvarlegum mönnunarvanda er fyrirséð að fjölga þurfi verulega starfsmönnum í heilbrigðiskerfinu á Íslandi. Á meðan Landspítalinn Háskólasjúkrahús (LSH) sér fram á að erfitt sé að taka á móti fleiri nemum hefur Sjúkrahúsið á Akureyri sagst geta tekið að sér fleiri nema og stærri verkefni. En svo það sé hægt þarf einnig fleira að koma til. 

Háskólasjúkrahús?

Í heilbrigðisstefnu til ársins 2030 er fjallað um hvort gera megi breytingar á fyrirkomulagi grunnmenntunar heilbrigðisstarfsfólks til að mæta betur þörfum íslensks heilbrigðiskerfis og skipulagi þjónustunnar um allt land, t.d. með því að taka betur tillit til aðstæðna í dreifðum byggðum. Þar er tekið dæmi um svæðissjúkrahúsið í Tromsö í Noregi sem fékk stöðu háskólasjúkrahúss eftir að háskólinn á svæðinu var settur á fót á grundvelli byggðasjónarmiða. Undirrituð telur í þessu samhengi mikilvægt að skoða hvort forsendur séu til staðar til styrkja stöðu Sjúkrahússins á Akureyri sem kennslusjúkrahúss ásamt því að skilgreina og viðurkenna hlutverk þess sem háskólasjúkrahús og hef af því tilefni lagt fram þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun til að efla Sjúkrahúsið á Akureyri. Samhliða því markmiði yrði stuðlað að bættri heilbrigðisþjónustu á upptökusvæði sjúkrahússins ásamt því að laða að sérhæft heilbrigðisstarfsfólk. Með aukinni samvinnu við LSH og viðeigandi menntastofnanir má byggja upp enn öflugra nám á sviði heilbrigðisvísinda á SAK.

Sterkari stofnun betri þjónusta

Öflug starfsemi Sjúkrahússins á Akureyri sem háskólasjúkrahúss myndi leiða til  þess að heilbrigðisþjónusta á Norður- og Austurlandi yrði enn betri. Sérfræðingar frá Sjúkrahúsinu á Akureyri fara nú þegar og hitta sjúklinga innan annarra starfsstöðva heilbrigðisstofnana á svæðinu og gæti sú þjónusta aukist enn frekar. Góð og metnaðarfull heilbrigðisþjónusta eins og Sjúkrahúsið á Akureyri hefur möguleika á að veita í auknum mæli ef rétt er gefið bætir búsetuskilyrði og heilbrigðisþjónustu á svæðum sem sum eiga undir högg að sækja.

Með því að efla og styrkja Sjúkrahúsið á Akureyri er verið að styrkja heilbrigðisþjónustu á Norður- og Austurlandi og með því jafna búsetutækifæri á landsbyggðinni. Ein ástæða þess að fólk flytur úr dreifbýli er að það getur ekki sótt menntun í heimabyggð. Önnur ástæða er að starfstækifæri vantar í heimabyggð. Undirrituð telur að með því að auka starfstækifæri í tengslum við styrkingu Sjúkrahússins á Akureyri og efla tækifæri til menntunar og vísinda við Háskólann á Akureyri megi bæði halda fólki á svæðinu sem og að laða aðra að. Því tel ég mikilvægt að skoðað verði af fullum þunga öll þau verkefni sem SAK gæti tekið að sér sem falla undir skilgreiningu háskólasjúkrahúss, því fylgja margir kostir fyrir svæðið á sama tíma og það léttir á álaginu á LSH.

Höfundur er fyrsti þingmaður NA kjördæmis og þingflokksformaður Framsóknar.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó