NTC

Öfgar og skyndilausnir leiða oftar en ekki til þess að þú hættir

Davíð æfir box í LA

Davíð æfir box í LA


Nú er sá tími árs þar sem margur Íslendingurinn ákveður að nú sé tímabært að koma sér í almennilegt form. Við á Kaffinu fengum
Davíð Rúnar Bjarnason, hnefaleikamann til að gefa lesendum góð ráð þegar kemur að því að koma sér í form. Davíð, sem er gríðarlega vinsæll á Snapchat undir notendanafninu ,,thugfather”, fær ótrúlega mikið af spurnigum frá fylgjendum sínum um hvernig sé best sé að gera hitt og þetta þegar kemur að líkamsrækt.  Davíð tók saman 11 ráð sem eiga að virka fyrir alla.

1.Markmið! Settu þér raunhæf markmið sem eru samt krefjandi og hafðu trú á því sem þú ert að stefna að. Sama hversu stórt markmið þú hefur ef ÞÚ hefur trú á því og klárar það, þá er bara enn sætara að horfa í spegilinn á eftir og segja við sjálfa/n sig ,,sjáðu þetta gat ég“.

2. Jafnvægi! Byrjaðu rólega og bættu svo smá og smá í. Öfgar og skyndilausnir endast ekki og leiða oftar en ekki til þess að þú gefst upp.

3. Rútína! Settu daginn þinn upp og skipulegðu hann vel, það er mun auðveldara að halda sér við hollustu ef að það er skipulag á hlutunum. Að fara að sofa á svipuðum tíma og vakna á svipuðum tíma yfir vikuna hjálpar helling.

4. Gerðu! Ein klukkustund er 4% af sólarhringnum og ef þú nærð ekki að búa til eina klukkustund til að hreyfa þig yfir daginn þá ertu bara að skipuleggja þig vitlaust.

5. Þetta á að vera gaman! Finndu þér æfingaleið sem þér finnst skemmtileg þannig að þig hlakki til að komast á æfingu og taka á því. Æfing þarf nefninlega alls ekki að þýða að standa bara fyrir framan spegil með handlóð og lyfta höndunum til skiptis, svo langt því frá.

6. Borðaðu MAT! Já ég sagði það, borðaðu kjöt, kjúkling og fisk. EKKI kjötfars, kjúklinganagga eða fiskibollur í dós. Þegar þú verslar í matinn veldu þá það sem er búið að eiga sem allra minnst við. Ekki versla frosna tilbúna matvörurétti heldur hreint fæði : kjöt, kjúkling, fisk, egg, grænmeti, ávexti, hnetur og fleira í þeim dúr.

7. Drekktu vatn! Já ég veit að ég er eins og biluð plata með þetta EN þetta er það mikilvægasta sem við Íslendingar eigum og þú hefur ekki hugmynd um hversu margt gott það gerir fyrir líkamlega heilsu. Það er hefur verið endalaust deilt um hversu mikið vatn á að drekka en yfirleitt er talað um að meðalmaðurinn eigi að drekka um 3 lítra yfir daginn sem er ágætis viðmið. Ég drekk mun meira enda hreyfi ég mig mjög mikið og aðrir drekka minna. Þarna erum við eingöngu að tala um hreint vatn, allur annar vökvi sem þú drekkur yfir daginn telst augljóslega ekki sem vatn.

8. Skúffan! Já við þekkjum hana öll, skúffan á heimilinu sem geymir nammið og allt það sem við eigum ekki að vera að grípa í en virðumst flest alltaf gera þegar við finnum smá svengdartilfinningu. Tæmdu hana algjörlega! Ég veit að þetta rusl sem er í henni kostaði peninga en treystu mér það er dýrara að vera ósáttur með sjálfa/n sig og líða illa. Ef það er ekkert í þessari blessuðu skúffu þá getur þú hreinlega ekki fengið þér úr henni.

9. Nammidagur! Ég hef tamið mér það að hafa einn svokallaðan nammidag í viku. Þessi dagur er heilagur og mjög mikilvægur fyrir bæði hausinn á manni og líkamann. Það er nefninlega mjög mikilvægt til að maður haldi haus að hafa svona dag sem maður má all og líkaminn hefur mjög gott af smá ,,sjokki“. Ég persónulega hef þennan dag á sunnudegi bara af því að vikan byrjar strax daginn eftir og þá byrja ég aftur á fullu.

10. Mataræði vs. æfingar! Það hefur oft verið sagt en sennilega aldrei nógu oft að þetta sé 80% mataræði og 20% æfingar. Það er hárrétt og prósentan mætti jafnvel vera enn hærri í mataræðinu. Hugaðu eins mikið og þú mögulega getur að mataræðinu þínu, það skiptir ÖLLU. Án þess að vera fáviti, þá skiptir engu hversu langt út í horn þú ferð og felur þig þegar þú svindlar á matarræðinu, það sést á þér á endanum.

11. GÆS! Get-Ætla-Skal. Settu nú hausinn upp og brostu af því að þú getur þetta. Ég sagði aldrei að þetta myndi vera auðvelt en ég get lofað þér því að þegar þú nærð settu markmiði þá er það ALLTAF þess virði. Svo er bara að setja sér annað og annað og negla þau öll!

Að lokum langar okkur á Kaffinu sérstaklega að mæla með að lesendur addi Davíð á Snapchat en notendanafn kappans er “thugfather”.

Sambíó

UMMÆLI