Oddviti Pírata segir bæjarráð hafa gert dýrkeypt mistök

Einar Brynjólfsson

Einar Brynjólfsson

Einar Brynjólfsson oddviti Pírata í Norðausturkjördæmi hefur tjáð sig um ákvörðun bæjarráðs að ganga að kauptilboði KEA í eignarhlut bæjarins í Tækifæri hf. Eins og við greindum frá á dögunum hafnaði bæjarráð ásökunum um að annarleg sjónarmið hafi ráðið för í þeirri ákvörðun en viðurkenndi að betur hefði mátt fara að hlutunum og að það hafi verið mistök að fara ekki með hlutabréfin í Tækifæri hf. í opið söluferli. Einar segir þetta dýrkeypt mistök í Facebook færslu sinni í gær.

,,Þetta eru dýrkeypt mistök fyrir alla sem að þessu máli koma vegna þess að þetta dregur úr trúverðugleika viðkomandi. Þetta er enn ein viðbótin við allan þann fjölda dæma um svokölluð „lokuð söluferli“ sem hafa verið dregin fram í dagsljósið, út úr myrkrinu (sem er reyndar kjörlendi spillingar og mistaka).“

Hann segir einnig að hugsanlega séu þetta dýrkeypt mistök fyrir bæjarbúa sem hefðu hugsanlega getað fengið hærra verð fyrir hlutinn í opnu söluferli eða haldið áfram að hirða arð úr fyrirtækinu. Hann heldur áfram og segir bókun bæjarráðs í raun stórfurðulega.
Í bókuninni segir: „Eftir á að hyggja hefði verið rétt að létta formlega trúnaði af málinu um leið og kauptilboðið var undirritað. Ljóst má vera að skýra þarf betur hvernig fara á með mál sem tímabundið kunna að vera færð í trúnaðarbók.“
,,Sem sagt bæjarráð sér ekkert athugavert við verknaðinn sjálfan, þ.e. að selja hlutinn í lokuðu ferli. Bæjarráð telur mistökin liggja í því að hafa ekki aflétt leyndinni strax,“ segir Einar.

Að lokum kallar hann eftir því að það fólk sem er ábyrgt fyrir málinu stígi fram og geri hreint fyrir sínum dyrum. ,,Eru menn ekki með öllum mjalla? Þetta er helsta vandamál opinberrar stjórnsýslu, ógagnsæ vinnubrögð. Menn pukrast í skjóli nætur og bera fyrir viðskiptahagsmunum og þetta er útkoman. Man einhver eftir Borgunarmálinu, eða fasteignafélaginu sem selt var út úr ÍLS á helgarsölu? Þetta fólk verður að stíga fram og gera hreint fyrir sínum dyrum, jafnvel þó það hafi meint vel. Þessi þögn er ærandi.“

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó