Framsókn

Oddvitaspjall – Sindri Geir Óskarsson (V)

Oddvitaspjall – Sindri Geir Óskarsson (V)

Líkt og alþjóð er kunnugt styttist nú óðum í Alþingiskosningar, en þær fara fram laugardaginn 30. Nóvember næstkomandi. Í ljósi þessa hefur Kaffið sent út stuttan spurningalista á oddvita allra framboða í Norðausturkjördæmi. Markmiðið er að gefa þessum frambjóðendum tækifæri til þess að kynna sig sérstaklega fyrir lesendum Kaffisins, sem flestir eru búsettir á Akureyri og Norðurlandi almennt.

Sindri Geir Óskarsson, sóknarprestur í Glerárkirkju, er efstur á framboðslista Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í Norðausturkjördæmi fyrir komandi kosningar. Svör hans við oddvitaspurningum Kaffisins er að finna hér að neðan.

Hver eru helstu stefnumál þíns flokks fyrir komandi kosningar?

Fyrir utan friðarmálin sem Ísland á að berjast fyrir á alþjóðavettvangi, femínismann og félagshyggjuna þá verð ég að nefna hér náttúruverndina. Við fáum yfir okkur holskeflu af loforðum frá öðrum flokkun um virkjanir og orkuöflun án þess að nein varúðarsjónarmið séu höfð með. Það þarf sterka rödd loftslagsmála og náttúruverndar á þing og þar er VG.

Segjum sem svo að flokkurinn þinn fengi meirihluta atkvæða á landsvísu og gæti einn myndað ríkisstjórn. Hvert yrði fyrsta mál á dagskrá?

Vinna að auknum jöfnuði í samfélaginu, m.a. með því að þau sem noti sameiginlegar auðlindir greiði sanngjarnt gjald fyrir það, að við lyftum upp þeim sem lifa við fátæktarmörk og tryggjum að allt fólk geti lifað mannsæmandi lífi hér á landi.

Finnst þér nægilega vel stutt við íbúa landsbyggðarinnar eins og staðan er í dag? Ef ekki, hvað viljið þú og þinn flokkur gera betur ef þið komist í ríkisstjórn?

Nei, stór hluti af gjaldeyristekjum þjóðarinnar verður til á landsbyggðinni og fjárfestingar þess opinbera utan höfuðborgarsvæðisins bera þess ekki merki. Ég vil nefna að við tryggjum samgöngur um kjördæmið okkar, með stóraukinni gangnagerð, að við útrýmum einbreiðum brúm og tryggjum flugsamgöngur. Það þarf að hefja aftur áætlanaflug um Húsavíkurvöll og efla Egilsstaðaflugvöll til millilandaflugs.

Hvaða málefni finnst þér skipta sérstöku máli fyrir Norðausturkjördæmi?

Heilbrigðismálin. Það er aðstöðumunur milli samfélaga hér innan kjördæmisins og það þarf að tryggja að heilbrigðisþjónusta sé hugsuð út frá hagsmunum íbúa en ekki út frá excelskjali. Það þarf að efla geðheilbrigðisþjónustu og ég brenn fyrir því að það verði byggt upp meðferðarúrræði fyrir fólk með fíknivanda á norðurlandi.

Af hverju ættu Norðlendingar að kjósa þinn flokk?

Í ár ætlar töluvert margt fólk að kjósa fyrst og fremst út frá efnahagsmálunum. Það er alveg skiljanlegt en áhersla VG á náttúruvernd og friðarmál á góðan hljómgrunn hjá mörgum. Leyfið ykkur að kjósa með hjartanu, við náum kannski ekki fyrri þingstyrk í þetta sinn, en röddin þarf að vera á þingi.

Ein létt að lokum, hvernig tekurðu kaffið þitt? 

Svart og uppáhellt.

VG

UMMÆLI

Sambíó