Oddvitaspjall – Sigurjón Þórðarson (F)

Oddvitaspjall – Sigurjón Þórðarson (F)

Líkt og alþjóð er kunnugt styttist nú óðum í Alþingiskosningar, en þær fara fram laugardaginn 30. Nóvember næstkomandi. Í ljósi þessa hefur Kaffið sent út stuttan spurningalista á oddvita allra framboða í Norðausturkjördæmi. Markmiðið er að gefa þessum frambjóðendum tækifæri til þess að kynna sig og framboð sín sérstaklega fyrir lesendum Kaffisins, sem flestir eru búsettir á Akureyri og Norðurlandi almennt.

Sigurjón Þórðarson, framkvæmdarstjóri, er efstur á framboðslista Flokks fólksins í Norðausturkjördæmi fyrir komandi kosningar. Svör hans við oddvitaspurningum Kaffisins er að finna hér að neðan.

Hver eru helstu stefnumál þíns flokks fyrir komandi kosningar?

  • Innleiða nýtt og traust húsnæðislánakerfi að danskri fyrirmynd.
  • Tryggja  450.000.-kr skatta og skerðingarlaust.
  • Efla strandveiðar.
  • Tryggja öldruðum áhyggjulaust ævikvöld.
  • Bætt heilbrigðisþjónusta með stóraukna áherslu á geð- og fíknisjúkdóma.
  • Efla löggæslu og tryggja landamærin.

Sigurjón bendir einnig á forgangsmál Flokks fólksins á heimasíðu flokksins.

Segjum sem svo að flokkurinn þinn fengi meirihluta atkvæða á landsvísu og gæti einn myndað ríkisstjórn. Hvert yrði fyrsta mál á dagskrá?

Útrýma fátækt og skera upp herör gegn spillingu.

Finnst þér nægilega vel stutt við íbúa landsbyggðarinnar eins og staðan er í dag? Ef ekki, hvað viljið þú og þinn flokkur gera betur ef þið komist í ríkisstjórn?

Staðan nú er sú að höfuðborgarsvæðið er stutt af landsbyggðinni en ekki öfugt þar sem mun meira af sköttum er aflað á landsbyggðinni en sem síðan er ráðstafað í hinum dreifðu byggðum. Eitt mikilvægasta verkefni þingmanna Norðausturkjördæmis er að vekja athygli á þessu og fá sanngjarnari skerf af kökunni sem er til skipta einkum til myndarlegra samgöngubóta.

Hvaða málefni finnst þér skipta sérstöku máli fyrir Norðausturkjördæmi?

Ef Landspítalinn á að standa undir nafni sem sjúkrahús allra landsmanna og Reykjavík sem höfuðborg landsins, þá þarf að tryggja framtíð Reykjavíkurflugvallar.  Það er ljóst að bróðurpartur borgarfulltrúa vinnur leynt og ljóst að því að grafa undan framtíð vallarins og er að þrengja að honum með því að þétta byggð í kringum völlinn.  Hér er um gríðarlega mikið öryggis- og hagsmunamál sem varðar þjóðarhag.

Af hverju ættu Norðlendingar að kjósa þinn flokk?

Flokkur fólksins vill beita sér fyrir átaki á Norðurlandi fyrir bættum úrræðum fyrir þá sem kljást við fíknisjúkdóm og bæta heilbrigðiskerfið með sérstakri áherslu á geðheilbrigðismál.

Flokkur fólksins forgangsraðar langtímahagsmunum íbúa Norðurlands ofar sérhagsmunum einstaka stórfyrirtækja.

Flokkur fólksins vill tryggja að Grímseyingar sem og aðrir Norðlendingar geti nýtt nálæg fiskimið, þrátt fyrir andstöðu sérhagsmunasamtaka sem vilja þess vegna geta selt nýtingaréttinn úr landi.
Flokkur fólksins beitir sér fyrir hagsmunum neytenda og gegn því að einstaka stórfyrirtæki komi upp einokunarkaupmennsku t.d. á kjötafurðum.

Flokkur fólksins treystir sér til þess að greiða úr þeim málum sem út af standa í okkar góða landi, en vísar þeim ekki til úrlausnar yfirvalda í Brussel.

Ein létt að lokum, hvernig tekurðu kaffið þitt?

Ég drekk kaffið rótsterkt og svart.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó