Oddvitaspjall – Ingvar Þóroddsson (C)

Oddvitaspjall – Ingvar Þóroddsson (C)

Líkt og alþjóð er kunnugt styttist nú óðum í Alþingiskosningar, en þær fara fram laugardaginn 30. Nóvember næstkomandi. Í ljósi þessa hefur Kaffið sent út stuttan spurningalista á oddvita allra framboða í Norðausturkjördæmi. Markmiðið er að gefa þessum frambjóðendum tækifæri til þess að kynna sig sérstaklega fyrir lesendum Kaffisins, sem flestir eru búsettir á Akureyri og Norðurlandi almennt.

Ingvar Þóroddsson, framhaldsskólakennari, er efstur á framboðslista Viðreisnar í Norðausturkjördæmi fyrir komandi kosningar. Svör hans við oddvitaspurningum Kaffisins er að finna hér að neðan.

Hver eru helstu stefnumál þíns flokks fyrir komandi kosningar?

Við viljum lækka vexti og verðbólgu með því að taka fjármál ríkisins föstum tökum og forgangsraða fjármagni til lykilmálaflokka. Við ætlum að leggja sérstaka áherslu á geðheilsu ungs fólks og stytta biðlista hjá þeim. Að lokum ætlum við að leggja áherslu á frjálslyndið, að leyfa fólki að vera það sjálft án óþarfa afskipta stjórnvalda. 

Segjum sem svo að flokkurinn þinn fengi meirihluta atkvæða á landsvísu og gæti einn myndað ríkisstjórn. Hvert yrði fyrsta mál á dagskrá?

Lækka verðbólgu og vexti. Þetta er algert forgangsmál í okkar huga og verður fyrsta verkefni sem við tökum að okkur ef við setjumst í ríkisstjórn að loknum kosningum.  

Finnst þér nægilega vel stutt við íbúa landsbyggðarinnar eins og staðan er í dag? Ef ekki, hvað viljið þú og þinn flokkur gera betur ef þið komist í ríkisstjórn?

Ég hef ferðast talsvert um kjördæmið og finn að fólki þykir gæðum misskipt milli landsvæða. Við hjá Viðreisn viljum jafna leikinn. Tryggar samgöngur allt árið eru grunnskilyrði fyrir jafnræði í búsetu. Við viljum líka efla sveitarfélögin á landsbyggðinni og styrkja tekjugrunn þeirra með sanngjarnri yfirfærslu á fjármagni í réttu hlutfalli við verkefni. Það eru frábærir staðir um allt land sem geta blómstrað í eigin krafti ef þeir fá bara jöfn tækifæri. 

Hvaða málefni finnst þér skipta sérstöku máli fyrir Norðausturkjördæmi?

Kjördæmið þarf að hafa öflugar samgöngur og sérstaklega hefur Austurland setið of lengi á hakanum. Það þarf að setja Fjarðarheiðargöng á dagskrá og huga að hringtengingu frá byrjun. Við viljum skoða hvata fyrir heilbrigðisstarfsfólk að vinna úti á landi og vinna að því að sérgreinalæknar komi í auknu mæli út á land og séu með móttöku fyrir sjúklinga í heimabyggð, í stað þess að sjúklingar þurfi að fara suður. Það hefur verið ágreiningur innan kerfa hvernig eigi að fjármagna þetta og þann ágreining þarf að leysa. Við þurfum einnig að auðvelda fólki að byggja hús um allt land. Loks eru landsmenn allir að bogna undan háum vöxtum og vil ég sérstaklega nefna bændur sem hafa þurft að fjárfesta mikið í tækjabúnaði á undanförnum árum og eiga erfitt með að standa undir hækkandi álögum. 

Af hverju ættu Norðlendingar að kjósa þinn flokk?

Vegna þess að við ætlum að vinna ákveðið að því að ná hallalausum fjárlögum svo vextir og verðbólga geti lækkað, setja andlega líðan ungs fólks í forgang og standa vörð um frelsi þitt til að ráða eigin lífi. Það er mikilvægt að Norðausturkjördæmi eigi öfluga fulltrúa á þingi sem þekkja svæðið og fólkið hér sem munu halda þeirra málefnum á lofti á komandi kjörtímabili. Þó ég segi sjálfur frá tel ég að Viðreisn hafi einstaklega vel mannaðan lista hér í kjördæminu sem mun valda því verkefni.

Ein létt að lokum, hvernig tekurðu kaffið þitt? 

Kolsvart og mikið af því

VG

UMMÆLI

Sambíó