NTC

Oddvitar í nærmynd – Hvernig virkjum við ungt fólk frekar í bæjarmálum?

Nú styttist óðfluga í bæjarstjórnarkosningar og því mikilvægt að kjósendur kynnist frambjóðendum sem best. Norðurland vildi leggja sitt af mörkum og tók stutt viðtöl við oddvita allra flokkanna sem eru í framboði á Akureyri. Í samstarfi við Kaffið verða niðurstöðurnar birtar hér í Kosningakaffinu.

Það getur verið erfitt að gera upp hug sinn hvern á að kjósa. Mörgum finnst baráttumál flokkana vera svipuð og erfitt að gera upp á milli. Oftar en ekki geta frambjóðendur í stjórnmálum fest sig í að tala um hvað má bæta, hvað væri draumamarkmið en ekki nákvæmlega hvernig á að bæta hlutina og ná þessum markmiðum. Það er gefið að allir flokkarnir vilja gera betur fyrir bæinn á mörgum sviðum en hvernig ætla þeir að gera það? Hvað aðskilur flokkana?
Frambjóðendur voru allir spurðir sömu krefjandi spurninganna og niðurstöðurnar má sjá hér að neðan:

Hvernig sérðu fyrir þér að virkja ungt fólk frekar í bæjarmálum?

FRAMSÓKN: Við höfum nú nýverið samþykkt áheyrnaraðild ungmennaráðs að fræðslu- og frístundaráði og hyggjumst skoða reynsluna af því í upphafi nýs kjörtímabils og fjölga þeim ráðum sem ungmennaráð hefði aðgang að. Í reglum ungmennaráðs er gert ráð fyrir sérstökum bæjarstjórnarfundi unga fólksins auk þess sem ungmennaráð fundar sérstaklega tvisvar á ári með frístundaráði um málefni ungs fólks og þá fundi ætlum við að virkja betur til að ná fram sjónarmiðum og áherslum ungs fólks á bæjarmálum.

L-LISTINN:

Ég sé fyrir mér að ungmennaráð verði virkjað enn frekar og sitji í fleiri nefndum á vegum bæjarins en nú er. Í samræmi við stefnu L-listans um að leita meira til þeirra sem þjónustunnar njóta, þá sé ég fyrir mér að grunnskólabörn séu spurð álits á því hvernig skólinn og frístund þeirra eigi að vera og hvað megi bæta og þannig að virkja ungmennin betur. Með því að setja ungt fólk og barnafólk í forgang og létta undir með þeim gefst þeim meiri tími til þess að hafa áhrif á samfélagið.

MIÐFLOKKURINN: Virkja þau meðul sem til eru t.d. Ungmennaráð. Einnig er nauðsynlegt að fylgja eftir öllum tæknibreytingum sem eiga sér stað í dag t.d. á samfélagsmiðlum sem í dag eru orðnir fjölmiðlar unga fólksins


PÍRATAR:
Ungt fólk í dag er aðdáunarvert. Það er klárt, fylgið sér og það sem mestu máli skiptir, vill hafa áhrif og sýnir frumkvæði. Það stendur ekki á þeim þegar kemur að því að virkja færni þeirra og hugsjónir inn í stjórnun samfélagsins okkar. Heldur okkur hinum. Til að koma til móts við þau þarf að virkja íbúalýðræði fyrir alla. Líka ungt fólk og þá á þeirra forsendum. Svo er alltof oft talað um að bjóða ungmennum að hafa áhrif á málefni er þau varðar en staðreyndin er sú að öll málefni eru líka þeirra málefni.


SJÁLFSTÆÐISFLOKKURINN:
Það verður aðeins gert með því að velja ungt fólk á framboðslista og það ofarlega. Fela ungu fólki ábyrgð og vinna þannig með þeim að þau finni að á þau sé hlustað og sjái að orð þeirra hafa áhrif. Það nennir enginn að vera með ef hann upplifir ekki að hann skipti máli. Við erum með flottan hóp ungs fólks á listanum sem á framtíðina fyrir sér og stefnum á að ná fulltrúa unga fólksins okkar, Berglindi í bæjarstjórn.

SAMFYLKINGIN: Ég tel að við getum virkjað ungt fólk enn frekar til þátttöku, t.d. með því að efla ungmennaráð. Við þurfum að leggja áherslu á að skapa vettvang fyrir raddir ungs fólks og að það finni að það hafi raunverulega rödd og það sé hlustað á það. Aðeins þannig fær það áhuga á að taka þátt, þetta getum við t.d. gert með því að efla rafræna þátttöku


VINSTRI GRÆN:
Með því að bæta íbúalýðræði og gefa ungu fólki fjölbreyttari tækifæri til þátttöku. Það er ekki nóg að boða bara annað slagið til opinna íbúafunda því það er mjög óskilvirk leið til samráðs. Það þarf að opna á samtal milli stjórnkerfisins og fólksins og nota til þess nútímalegar samskiptaleiðir.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó