NTC

Oddvitar í nærmynd – Hvernig ætlið þið að virkja íbúalýðræði frekar á Akureyri?

Nú styttist óðfluga í bæjarstjórnarkosningar og því mikilvægt að kjósendur kynnist frambjóðendum sem best. Norðurland vildi leggja sitt af mörkum og tók stutt viðtöl við oddvita allra flokkanna sem eru í framboði á Akureyri. Í samstarfi við Kaffið verða niðurstöðurnar birtar hér í Kosningakaffinu.

Það getur verið erfitt að gera upp hug sinn hvern á að kjósa. Mörgum finnst baráttumál flokkana vera svipuð og erfitt að gera upp á milli. Oftar en ekki geta frambjóðendur í stjórnmálum fest sig í að tala um hvað má bæta, hvað væri draumamarkmið en ekki nákvæmlega hvernig á að bæta hlutina og ná þessum markmiðum. Það er gefið að allir flokkarnir vilja gera betur fyrir bæinn á mörgum sviðum en hvernig ætla þeir að gera það? Hvað aðskilur flokkana?
Frambjóðendur voru allir spurðir sömu krefjandi spurninganna og niðurstöðurnar má sjá hér að neðan:

Nú tala flestir um að virkja íbúalýðræði enn frekar. Hvernig myndir þú gera það? Er íbúalýðræði ábótavant?

FRAMSÓKN – Guðmundur Baldvin: Við viljum efla íbúalýðræði og horfum til þess að koma á betri rafrænum samskiptum við íbúa m.a. með íbúakosningum um einstaka mál og framkvæmdir.  Í því sambandi viljum við eyrnamerkja ákveðna fjárhæð í framkvæmdaáætlun sem við myndum nýta í verkefni í sveitarfélaginu sem valin yrðu af íbúum.  Við stigum líka fyrsta skrefið í aðkomu almennings að vinnu við fjárhagsáætlunargerð s.l. haust með kynningarfundi um fjárhagsáætlun og hyggjumst taka frekari skref í þá átt strax næsta haust.

L-LISTINN – Halla Björk:
Íbúalýðræði er hægt að virkja með ýmsum hætti og að mínu viti nauðsynlegt að nota margvíslegar leiðir. Við í L-listanum viljum til dæmis tryggja betur aðkomu þeirra sem njóta eiga þjónustunnar sem veitt er, þannig að notendur séu með í ákvörðunarferli frá byrjun. Við viljum nýta okkur tækninýjungar og gera fólki auðveldara að koma sínum skoðunum á framfæri við stjórnsýsluna, Íbúafundir verði haldnir reglulega og hverfisnefndir verði efldar enn frekar.


MIÐFLOKKURINN – Hlynur Jóhannsson:
Á þessu máli eru margar skoðanir og sitt sýnist hverjum. Já, það þarf að auka íbúalýðræði en akkúrat hvernig það yrði best gert þarf að fara í gegnum með samfélaginu öllu.

 

PÍRATAR – Dóri Ara: Íbúalýðræði eða tilraunir til valdeflingar fólksins í samfélaginu er svo sannarlega ábótavant. Íbúalýðræði er nefnilega ekki bara að spyrja endrum og eins hvar eigi að leggja göngustíg. Fyrsta skrefið í valdeflingu og það að gefa fólkinu rödd er að átta sig á því að slíkt er ekki þjónusta þeirra sem stjórna til handa fólkinu heldur er það mikilvægt verkfæri, fært í hendur stjórnenda á silfurfati. Mannauður hvers samfélags er nefnilega verðmesti auðurinn. Og að fá tækifæri til að nýta hann er ákaflega verðmætt og mikilvægt. Þá er líka mjög mikilvægt að horfa til lausna þar sem sannarlega allir fái tækifæri til að láta í ljós vilja sinn og skoðun. Margar leiðir eru færar til aukins íbúalýðræðis og þar skiptir t.d. upplýsing höfuðmáli. Það er á höndum stjórnenda samfélagsins að tryggja örugga og skilvirka leið til að upplýsa fólkið. T.d. um réttindi þeirra til að knýja á um íbúakosningu og að slíkar kosningar séu bindandi. Að koma á verkefnum á borð við Betri Akureyri og Mitt hverfi þar sem vandað er til uppsetningar og framkvæmdar. Umboðsmaður íbúa. Gera sér grein fyrir að engin ein leið er rétt og mikilvægt sé að vera alltaf á tánum með framþróun og endurskoðun á leiðum til valdeflingar.


SAMFYLKINGIN – Hilda Jana:
Íbúasamráð á í mínum huga ekki aðeins að felast í því að bjóða upp á opna fundi eða viðtalstíma, sem fáir nýta sér og oft sama fólkið. Markvisst íbúasamráð þarf að vera faglegt, raunverulegt, bera virðingu fyrir tíma fólks, auk þess sem fólk þarf að vera vel upplýst um niðurstöður íbúasamráðsins. Íbúasamráð er sífellt að verða betra og sýnist mér t.d. að vel hafi tekist til við gerð nýrrar íþróttastefnu á Akureyri. Hins vegar tel ég að gera mætti enn betur, ég tel að við þurfum að bæta upplýsingagjöf bæjarfélagsins og að hún sé í takt við stafrænan veruleika. Upplýsingarnar þurfa að vera aðgengilegri, á mannamáli og gera þarf framsetninguna hreinlega skemmtilegri.


SJÁLFSTÆÐISFLOKKURINN – Gunnar Gíslason:
Við getum gert miklu betur í þeim málum. Það liggur fyrir skýrsla sem unnin var fyrir bæjarstjórna að frumkvæði okkar. Þar koma fram margar góðar tillögur sem ég tel mikilvægt að fylgja eftir. Það þarf að taka upp samráðsferli vegna fjárhagsáætlunarvinnu hvers árs. Það á að vera með samráð um framkvæmdir í hverfum í gegnum rafræna gátt, það má kjósa um einstök mál og það þarf að vera til virkt samráðsferli um mörg mál t.d. með íbúafundum. Það skiptir máli að íbúar upplifi að á þá sé hlustað og skoðanir þeirra skipti máli alltaf en ekki bara á fjögurra ára fresti. Rafræn stjórnsýsla er einnig málið.

VINSTRI GRÆN – Sóley Björk: Já, því er mjög ábótavant vegna þess að það hefur ekki verið raunverulegur vilji til að virkja þátttökulýðræði. Leiðirnar til þess eru í grunninn tiltölulega einfaldar en þær kosta þó nokkra vinnu af hendi kjörinna fulltrúa og starfsfólks bæjarins og því miður hefur ekki verið mótuð nein stefna til að bæta aðkomu bæjarbúa að kerfinu. Til er fjöldi fyrirmyndarverkefna um vel heppnað þátttökulýðræði t.d. í Svíþjóð. Mikilvægast er að átta sig á því að ólíkar leiðir þarf til að ná sambandi við ólíka hópa samfélagsins.

Sambíó

UMMÆLI