Nú styttist óðfluga í bæjarstjórnarkosningar og því mikilvægt að kjósendur kynnist frambjóðendum sem best. Norðurland vildi leggja sitt af mörkum og tók stutt viðtöl við oddvita allra flokkanna sem eru í framboði á Akureyri. Í samstarfi við Kaffið verða niðurstöðurnar birtar hér í Kosningakaffinu.
Það getur verið erfitt að gera upp hug sinn hvern á að kjósa. Mörgum finnst baráttumál flokkana vera svipuð og erfitt að gera upp á milli. Oftar en ekki geta frambjóðendur í stjórnmálum fest sig í að tala um hvað má bæta, hvað væri draumamarkmið en ekki nákvæmlega hvernig á að bæta hlutina og ná þessum markmiðum. Það er gefið að allir flokkarnir vilja gera betur fyrir bæinn á mörgum sviðum en hvernig ætla þeir að gera það? Hvað aðskilur flokkana?
Frambjóðendur voru allir spurðir sömu krefjandi spurninganna og niðurstöðurnar má sjá hér að neðan:
Er hægt að gera eitthvað á fjórum árum? Telur þú að þú gætir náð ykkar markmiðum/stefnuskrá á fjórum árum í bæjarstjórn?
FRAMSÓKN: Já, við getum svo sannanlega gert margt á næstu fjórum árum. Við í núverandi meirihluta erum að skila sveitarfélaginu í mjög góðri stöðu og því gott svigrúm til að takast á við þau verkefni sem við erum með á okkar stefnuskrá. Við leggjum einmitt mikla áherslu á að stefna okkar sé raunhæf og framkvæmanleg og án gylliboða.
L-LISTINN: Já, svo sannarlega. L-listinn hefur sýnt að hann kemur hlutum í verk. Þegar ég sat í bæjarstjórn fyrir L-listann 2010-14 þá komum við ýmsum umbótum á þrátt fyrir að vera í efnahagslegri niðursveiflu, svo sem Dalsbraut, komum að Vaðlaheiðargöngum og göngustígnum meðfram Drottningarbraut ásamt því að ná að greiða niður skuldir og hagræða í rekstri. Þannig að já, ef að sýnin er skýr og öflugt fólk við stjórnvölinn þá er allt hægt. Við teljum að með okkar aðgerðum í dagvistunar- og skólamálum ásamt uppbyggingu húsnæðismarkaðar og atvinnulífs, meðal annars með beinu flugi, getum við eftir fjögur ár verið mest spennandi búsetukostur á landinu.
MIÐFLOKKURINN: Já, það er hægt ef vilji er fyrir hendi. Það er ekki gott þegar sömu vandamálin eru uppi á borðinu kosningar eftir kosningar.
PÍRATAR: Fjögur ár eru í senn langur tími og skammur. Sum verkefni þarf að líta á sem ekki bara meira aðkallandi heldur líka sem skammtímaframkvæmd. Önnur verkefni eru þess eðlis að mikilvægt er að hafa skýra og góða framtíðarsýn og vera fylginn þeirri sýn. Ég tel að Píratar hafi nægan karakter til að fylgja sínum málum eftir af heiðarleika og festu.
SAMFYLKINGIN: Ég væri ekki að bjóða fram krafta mína í fjögur ár ef ég teldi að ekkert væri hægt að gera á þeim tíma. Sum verkefni geta klárast á einu kjörtímabili en önnur eru auðvitað langtímaverkefni. Bæjarstjórn má ekki gleyma því að leggja vinnu í framtíðarsýn sveitarfélagsins og gera langtímaáætlanir, jafnvel þó svo að hún sé aðeins kjörin til fjögurra ára.
SJÁLFSTÆÐISFLOKKURINN: Það er hægt að gera margt á fjórum árum og leggja drög að verkferlum vegna annarra verkefna á þeim tíma sem gætu komist til framkvæmda síðar. Miðað við þá greiningu sem við höfum unnið á tillögum okkar, teljum við að flest þeirra geti komist til framkvæmda á fjórum árum. Það kallar hins vegar á skýra verkstjórn og vandaðar skammtíma- og langtímaáætlanir sem verður fylgt eftir með markvissum hætti.
VINSTRI GRÆN: Það er magnað hvað hægt er að gera á fjórum árum ef bæjarstjórnin er samhent. Já, ég er sannfærð um að við gætum gert miklar breytingar á þeim tíma því okkar stefna er skýr og vel undirbúin og við myndum taka vasklega á málunum.
UMMÆLI