NTC

Oddvitar í nærmynd: Einar Brynjólfsson í Pírötum situr fyrir svörum

Kosningakaffið leitar svara hjá efstu sætum á listum stjórnmálaflokkanna í Norðausturkjördæmi. Viðtölin verða öll birt á næstu dögum en Kosningakaffið er tilraun til þess að auðvelda kjósendum að fræðast um flokkana, málefni þeirra, stefnur og fólkið á bakvið þá til þess að kjósendur geti tekið upplýsta ákvörðun í komandi kosningum. Hverju eru allir að lofa? Ef ég kýs þennan flokk, hvað græði ég á því sem Íslendingur og Norðlendingur?
Þriðji viðmælandinn er Einar Brynjólfsson, oddviti Pírata í Norðausturkjördæmi. Einar komst á þing fyrir NA-kjördæmi í síðustu kosningum og stefnir þangað aftur. Við gefum Einari orðið.

Einar Brynjólfsson.

Hvað finnst þér um að fara í kosningar svona stuttu eftir kosningar?
Það hefði reyndar mátt reyna annað meirihlutasamstarf, en ekki náðist samstaða um það. Ég hef lært óhemju mikið undanfarna 11 mánuði og er svo sannarlega til í slaginn. Ég vona að kjósendur séu það líka.

Hver verða ykkar helstu stefnumál fyrir komandi kosningar og af hverju ættu Norðlendingar að kjósa flokkinn?
Ný stjórnarskrá, húsnæðismál, heilbrigðis- og velferðarmál verða fyrirferðarmest í okkar baráttu. Við höfum sýnt í verki að við erum ekki handbendi ákveðinna hagsmunaafla, heldur berum við hag allra Íslendinga fyrir brjósti. Við erum traustsins verð.

Hefur þú náð að gera eitthvað af því sem þú lofaðir í síðustu kosningum? Ef ekki, þá af hverju? Og af hverju telur þú að þér takist það ef þú kemst á þing aftur í þessum kosningum?
Fyrir síðustu kosningar lofaði ég því, og Píratahreyfingin sem heild líka, að berjast gegn spillingu og subbuskap með gagnsæi að leiðarljósi. Ég lofaði því að berjast fyrir umbótum í heilbrigðismálum, sérstaklega í geðheilbrigðismálum ungs fólks, menntamálum, samgöngumálum og umhverfisvernd.
Ég hef reynt að hafa upp skynsamlegan málflutning um ofangreind áherzlumál, jafnt í ræðustóli Alþingis sem og annars staðar, og þykizt þess fullviss að á mig hafi verið hlustað. Það er jú dropinn sem holar steininn.
Ég mun halda áfram á sömu braut ef ég næ kjöri til Alþingis á nýjan leik og ef upp kemur sú staða að ég verði þátttakandi í ríkisstjórnarsamstarfi verður hægur vandi fyrir mig að gera enn betur.

Segjum sem svo að þinn flokkur fengi öll atkvæði þjóðarinnar og þið réðuð yfir öllu alþingi. Hvert yrði fyrsta mál á dagskrá?
Við myndum framfylgja vilja þjóðarinnar og taka upp nýja stjórnarskrá, byggða á þeirri sem þjóðin samdi sjálf fyrir nokkrum árum. Með henni eflum við beint lýðræði, auk þess sem þar er að finna ákvæði um þjóðareign náttúruauðlindanna, náttúruvernd o.fl. Nýja stjórnarskráin er samfélagssáttmáli þjóðarinnar Á henni skulum við byggja framtíðina.

Telur þú að það stefni í annað hrun? Ef já, er eitthvað sem þú gætir gert til að koma í veg fyrir það?
Það mun koma efnahagsleg niðursveifla eða kreppa fyrr eða síðar. Það er gangur sögunnar og honum verður ekki breytt. Ég vil að við borgum niður skuldir ríkisins, byggjum upp heilbrigðis- og velferðarkerfið, menntakerfið, samgöngur og húsnæðismál. Ef okkur tekst það ættum við að vera sæmilega búin undir næstu dýfu.

Hver er lærdómsríkasta vinna sem þú hefur haft í gegnum ævina og þú telur að hafi undirbúið þig hvað mest undir þingstarfið (má ekki nefna fyrri þingstörf)?
Starf mitt sem framhaldsskólakennari hefur undirbúið mig hvað bezt fyrir þingstarfið, auk þess sem það hefur þroskað mig og bætt.

Oddvitar í nærmynd – Benedikt Jóhannesson situr fyrir svörum

Oddvitar í nærmynd – Arngrímur Viðar Ásgeirsson í Bjartri Framtíð situr fyrir svörum

 

Sambíó

UMMÆLI