NTC

Oddvitar í nærmynd – Arngrímur Viðar Ásgeirsson í Bjartri Framtíð situr fyrir svörum

Kosningakaffið leitar svara hjá efstu sætum á listum stjórnmálaflokkanna í Norðausturkjördæmi. Viðtölin verða öll birt á næstu dögum en Kosningakaffið er tilraun til þess að auðvelda kjósendum að fræðast um flokkana, málefni þeirra, stefnur og fólkið á bakvið þá til þess að kjósendur geti tekið upplýsta ákvörðun í komandi kosningum. Hverju eru allir að lofa? Ef ég kýs þennan flokk, hvað græði ég á því sem Íslendingur og Norðlendingur?
Annar viðmælandinn er Arngrímur Viðar Ásgeirsson, oddviti Bjartrar Framtíðar í Norðausturkjördæmi. Hann sat í þriðja sæti á lista flokksins fyrir síðustu kosningar en hefur nú tekið við fyrsta sætinu. Við gefum Arngrími orðið.

Arngrímur Viðar Ásgeirsson.

Hvað finnst þér um að fara í kosningar svona stuttu eftir kosningar?

Kosningar eru lýðræðislegt afl sem nú þarf að grípa til m.a. vegna þess að Björt Framtíð taldi að það sem var að gerast á stjórnarheimilinu væri ekki í samræmi við siðferði og traust sem þar á að ríkja. Þá verður vonandi meira leitað til þjóðarinnar og þá í rafrænum kosningum í framtíðinni.

Hver verða ykkar helstu stefnumál fyrir komandi kosningar og af hverju ættu Norðlendingar að kjósa flokkinn?
Okkar helstu baráttumál eru ábyrg stjórnmál. Tölum saman og segjum satt. Virðum hvort annað. Góð mál verða betri ef fleiri koma að þeim. Fjölbreytt og spennandi Ísland og þar með talið Norðausturkjördæmi. Hugum að fjölbreyttri atvinnustarfsemi til sjávar og sveita. Eflum byggð í dreifbýli með nýrri atvinnustarfsemi og búsetustyrkjum. Allt í anda sjálfbærni og náttúrugæða. Björt Framtíð er umhverfisverndarflokkur og vill sjá bjarta framtíð fyrir náttúru landsins.

Hefur þú náð að gera eitthvað af því sem þú lofar í síðustu kosningum? Ef ekki, þá af hverju? Og af hverju telur þú að þér takist það ef þú kemst á þing aftur í þessum kosningum?
Er nýr á sviðinu og ekki verið í oddvitasæti áður. Við náðum ekki inn manni hér í kjördæmi á síðustu árum en vonandi núna. Ráðherrar okkar í heilbrigðis og umhverfisráðuneytum náðu góðum árangri á stuttum tíma m.a. með átaki í geðheilbrigðismálum og stækkun þjóðgarða.

Segjum sem svo að þinn flokkur fengi öll atkvæði þjóðarinnar og þið réðuð yfir öllu alþingi. Hvert yrði fyrsta mál á dagskrá?
Stórt er spurt. Ég held að það verði farið vel yfir málin og búin til áætlun til langs tíma. Þannig að: áætlunargerð fyrir betra Ísland yrði fyrsta mál á dagskrá.

Telur þú að það stefni í annað hrun? Ef já, er eitthvað sem þú gætir gert til að koma í veg fyrir það?
Hrun geta verið stór og lítil, breið og mjó. Það er ekki hrun í kortunum sem ég sé en við þurfum sökum lítils hagkerfis að fara varlega og helst að ná fótfestu í náinni framtíð þar sem við tengjum okkur við stærri kerfi sem veita meira öryggi.

Hver er lærdómsríkasta vinna sem þú hefur haft í gegnum ævina og þú telur að hafi undirbúið þig hvað mest undir þingstarfið?
Þau eru mörg og fjölbreytt… Ætli ég verði ekki bara að segja að vinna með foreldrum mínum í fjárhúsunum og fást við sauðfé. Þar þarf  mikið umburðalyndi, alúð, þolinmæði og góða skapið, sem kemur sér mjög vel í þingstarfinu held ég.

 

Sjá einnig: 

Oddvitar í nærmynd – Benedikt Jóhannesson situr fyrir svörum

Sambíó

UMMÆLI