NTC

Oddvitar í nærmynd – Af hverju ertu að bjóða þig fram?

Nú styttist óðfluga í bæjarstjórnarkosningar og því mikilvægt að kjósendur kynnist frambjóðendum sem best. Norðurland vildi leggja sitt af mörkum og tók stutt viðtöl við oddvita allra flokkanna sem eru í framboði á Akureyri. Í samstarfi við Kaffið verða niðurstöðurnar birtar hér í Kosningakaffinu.

Það getur verið erfitt að gera upp hug sinn hvern á að kjósa. Mörgum finnst baráttumál flokkana vera svipuð og erfitt að gera upp á milli. Oftar en ekki geta frambjóðendur í stjórnmálum fest sig í að tala um hvað má bæta, hvað væri draumamarkmið en ekki nákvæmlega hvernig á að bæta hlutina og ná þessum markmiðum. Það er gefið að allir flokkarnir vilja gera betur fyrir bæinn á mörgum sviðum en hvernig ætla þeir að gera það? Hvað aðskilur flokkana?
Frambjóðendur voru allir spurðir sömu krefjandi spurninganna og niðurstöðurnar má sjá hér að neðan

Af hverju ertu að bjóða þig fram í bæjarstjórn?

FRAMSÓKN: Ég hef mikinn áhuga og metnað fyrir samfélaginu og hef öðlast mikla og góða þekkingu og reynslu af bæjarmálum eftir 8 ára setu í bæjarstjórn.  Á yfirstandandi kjörtímabili hef ég sem formaður bæjarráðs leitt vinnu þá er snýr að fjármálum bæjarins. Þar höfum við aukið gagnsæi, bætt upplýsingagjöf og unnið markvisst að því að bæta fjárhagsstöðu sveitarfélagsins. Þá hef ég lagt mikið upp úr góðri samvinnu meiri- og minnihluta og mér gengur vel að vinna með fólki. Ég hef síðastliðið eitt og hálft ár starfað eingöngu að bæjarmálum sem hefur reynst afar vel í störfum mínum og er tilbúinn til að halda því áfram. Á grundvelli þessa býð ég mig fram.


L-LISTINN:
Það eru krefjandi en jafnframt spennandi tímar fram undan á Akureyri og ég tel að mín reynsla og þekking af bæjarmálum geti nýst vel í þeim verkefnum.

MIÐFLOKKURINN:
Ég er búinn að búa hér í 20 ár og hefur liðið mjög vel. Er giftur þriggja barna faðir og þetta bæjarfélag hefur verið okkur mjög hjartfólgið. Mig langar að gefa til baka fyrir allt sem bærinn hefur gefið okkur.

PÍRATAR: Ég býð mig fram vegna þess að ég vil sjá ákveðnar grundvallarbreytingar á samfélaginu okkar, breytingar í átt að valdeflingu almennings. Ég vil sjá breytingar til batnaðar í málefnum barna, unglinga, öryrkja og eldri borgara. Of oft er þessum samfélagshópum ýtt til hliðar og sagt að vera sátt með sitt. Það er óásættanlegt.

SJÁLFSTÆÐISFLOKKURINN: Ég er í pólitík til að láta gott af mér leiða. Ég tel mig hafa reynslu og bakgrunn sem nýtist vel í bæjarstjórn og vil leggja mig allan fram um að þjóna bæjarbúum sem best því ég vil veg Akureyrar sem mestan. Það gerum við ekki nema hér sé mannvænlegt og gott samfélag sem fólk vill lifa í og fyrirtæki vilja starfa í.

SAMFYLKINGIN: Af því að ég vil ekki bara tala um það sem mætti gera betur, ég vil leggja mitt af mörkum til að gera gott samfélag betra.


VINSTRI GRÆN:
Vegna þess að ég hef þekkingu og reynslu sem getur nýst til að gera samfélagið okkar enn betra en það er í dag. Ég hef brennandi áhuga á samfélagsmálum og get því varla hugsað mér skemmtilegra starf en að vera bæjarfulltrúi.   

Sambíó

UMMÆLI