NTC

Oddvitar í nærmynd: Ingibjörg Isaksen

Oddvitar í nærmynd: Ingibjörg Isaksen

Alþingiskosningar verða haldnar 25. september næstkomandi. Sem hluti af Kosningakaffinu heyrði Kaffið.is í oddvitum þeirra níu flokka sem bjóða sig fram í Norðausturkjördæmi og spurði út í komandi kosningar. Spurt var meðal annars um stefnu flokksins, áherslur í komandi kosningum og málefni Norðausturkjördæmis.

Markmið Kosningakaffisins er að auðvelda kjósendum að fræðast um flokkana, áherslur þeirra og stefnu, og kynnast oddvitum kjördæmisins.

Fyrsti viðmælandinn er Ingibjörg Ólöf Isaksen, oddviti Framsóknarflokksins.

Hver eru ykkar helstu stefnumál fyrir komandi kosningar?

Við leggjum aðaláherslu á að fjárfesta í fólki til framtíðar. Til þess þarf að fara í almennar aðgerðir og hefja markvissa vinnu við að endurmeta og samþætta þjónustu við fólk.

Eitt af brýnustu málefnum samfélagsins í dag er að ráðast í kerfisbreytingar í heilbrigðismálum. Aðalmarkmiðið verði að tryggja að allir landsmenn njóti góðrar heilbrigðisþjónustu óháð búsetu og efnahag. Forgangsatriði er að stytta biðlista og því teljum við vænlegast að fara svokallaða blandaða leið –  þ.e. nýta hvoru tveggja ríkis- og einkarekstur. Þannig minnkum við álag á Landspítalann, heilsugæsluna og tryggjum að allir fái notið heilbrigðisþjónustu hvar sem þeir búa á landinu.

Við viljum fjölga fólki á landsbyggðinni og ætlum að tryggja að aðgengi að húsnæði, framboð starfa, aðgengi að menntastofnunum frá leikskóla upp í háskóla, aðgengi að heilbrigðisstofnunum, lánsfjármagni o.s.frv. séu til staðar.

Það er forgangsmál hjá okkur að lífsgæði og jöfn tækifæri séu til staðar á Íslandi óháð því hvar þú býrð á landinu eða efnahag fólks. Við teljum að til langrar framtíðar sé landinu okkar best borgið að það verði byggð um allt land og því er nauðsynlegt að nýta þau tækifæri sem gefast til að jafna aðstöðumun landsbyggðarinnar og stórhöfuðborgarsvæðisins. Við viljum beita okkur fyrir því að nota skattkerfið til að jafna aðstöðu fólks og fyrirtækja á landsbyggðinni. Þannig nýtum við skattkerfið til að fjárfesta í fólki og búum til hvata fyrir fjölþætta verðmætasköpun. 

Einnig leggjum við eins og áður mikla áherslu á samgöngumálin og að uppbyggingu vega og jarðgangna í Norðaustur kjördæmi haldi áfram á fullum krafti. Grettistaki hefur verið lyft í samgöngumálum á kjörtímabilinu en við viljum halda áfram, byggja vegi, bæta umferðaröryggi og halda áfram uppbyggingu flugvalla og hafna. Loftslagsmálin eru í forgangi og skynsöm nýting orkuauðlinda.

Þá horfum við til nýsköpunar og viljum að enn meira fjármagn sé sett í þann málaflokk. Það eru gríðarleg tækifæri í landbúnaði, sjávarútvegi og orkumálum um land allt og við viljum styrkja þá sem leita að og finna ný tækifæri í þessum grundvallar málaflokkum. Um leið þarf að tryggja aðgengi fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. að lánsfé. Við teljum að með bættu rekstrarumhverfi þessara fyrirtækja skapist mikil tækifæri, sérstaklega í ferðaþjónustu.

Þetta eru nokkur af stærstu áhersluatriðum okkar Framsóknarmanna á landsvígu og við viljum vinna að þessum málefnum undir merkjum samvinnu með það að markmiði að fjárfesta í fólkinu í landinu. Annars má finna allt um stefnu Framsóknar inn á framsokn.is.

Segjum sem svo að flokkurinn þinn fengi meirihluta atkvæða og gæti einn myndað ríkisstjórn. Hvert yrði fyrsta mál á dagskrá?

Ég tel að það sé mikilvægast að ráðast strax í kerfisbreytingar í heilbrigðiskerfinu og málefnum eldra fólks. Uppbygging innviða og jöfnun búsetuskilyrða yrðu einnig í forgangi.

Hvaða málefni eru mikilvæg fyrir Norðausturkjördæmi?

Ferðaþjónustan gegnir stóru hlutverki hér á svæðinu og áframhaldandi uppbygging flugvallanna á Akureyri og Egilsstöðum því nauðsynleg. Beint flug ferðamanna frá útlöndum er gríðarlega mikilvægt fyrir okkar svæði og við viljum beita okkur fyrir því að öll skilyrði fyrir því séu til staðar.

Norðaustur kjördæmi býr einnig að gríðarlegum tækifærum til frekari nýtingar orkunnar sem þar er að finna. Við sjáum dæmi þess í gerð jarðbaða, gróðurhúsa, vetnisframleiðslu og framleiðsla á snyrtivörum sýna svart á hvítu og græna hagkerfi kjördæmisins er fyrir hendi og má nýta til atvinnu uppbyggingar.  

Hér liggja einnig afar mörg tækifæri til verðmætasköpunar í landbúnaði með staðbundinni framleiðslu og neyslu og aukinni fullvinnslu. En ekki síður með aukinni grænmetisframleiðslu í ljósi breytinga á neysluháttum. Þetta er hægt að efla enn frekar t.d. með niðurgreiðslu á raforku.

Tækifæri liggja einnig í störfum án staðsetningar og það er mikilvægt og sanngjarnt, að þegar ný opinber störf verða til, sé fyrst horft til landsbyggðarinnar. Landsbyggðina vantar ekki einungis opinber störf heldur sérfræðistörf og vel borgandi störf þar sem þekking og menntun fólks fær að njóta sín. Það hefur svo margt breyst með Covid 19. Til að mynda er það staðreynd að erlendis sækir fólk í meira mæli út í strjálbýlið og flytur störfin með sér. Tækifærin eru til staðar og eru í raun óteljandi. Við í Framsókn teljum að ef unnið er markvisst að finna og skapa þessi tækifæri þá sé framtíð fólksins í kjördæminu björt.  

Í Norðausturkjördæmi eru einhver öflugustu fyrirtæki landsins í sjávarútvegi og fiskeldi og þar liggja einnig mikil tækifæri. Miklar breytingar eru fyrirsjáanlegar í þessum greinum og samkeppnin aukast í heiminum. Íslensk fyrirtæki hafa með eftirtektarverðum hætti breytt starfsháttum sínum á síðustu árum til að tryggja gæði afurða og aukna framlegð. Sjávarútvegurinn krefst því starfsfólks með mikla menntun og þekkingu og það er hlutverk okkar að skapa þann grundvöll til að mynda með áframhaldandi uppbyggingu Háskólans á Akureyri og háskólasetrum.

Hvaða aðgerðir telur þú mikilvægastar til að takast á við loftslagsvandann?

Að flýta enn frekar fyrir orkuskiptum og nýta innlenda, græna orkugjafa til verksins.

Hvað finnst þér um aðgerðir ríkisstjórnarinnar í baráttunni við Covid? Hvernig fannst þér tekið á Covid á landsbyggðinni?

Ég styð þær heilshugar og tel að vel hafi tekist til. Við sem þjóð höfum verið samstillt, skynsöm og varkár og fylgt ráðum sérfræðinga hvar sem við búum á landinu. Það eru einnig fáar þjóðir sem hafa náð álíka árangri og við Íslendingar í bólusetningum sem gerir það að verkum að viðspyrnan getur hafist fyrr en áður var talið. Ég er sannfærð um að tillögur okkar Framsóknarmanna, sem áður hefur verið komið að, séu best til þess fallnar að það gerist hratt og örugglega.   

Af hverju ættu Norðlendingar að kjósa flokkinn?

Framsókn er öfgalaus, framsækinn landsbyggðarflokkur sem hefur alltaf lagt áherslu á, og mun gera áfram, að lífsgæði og jöfn tækifæri séu til staðar fyrir íbúa Norðurlands, óháð búsetu og efnahag.

Við erum með öflugan, fjölbreyttan hóp einstaklinga, sem þekkja vel til svæðisins, og eru reiðubúnir að leggja sig alla fram um gera góð samfélög enn betri.   


Kaffið.is fylgist með Alþingiskosningunum í haust með áherslu á Norðausturkjördæmi. Finna má fleiri greinar og annað gagnlegt efni tengt kosningunum með því að smella hér.

Sambíó

UMMÆLI