NTC

Oddvitar í nærmynd: Einar Brynjólfsson

Oddvitar í nærmynd: Einar Brynjólfsson

Alþingiskosningar verða haldnar 25. september næstkomandi. Sem hluti af Kosningakaffinu heyrði Kaffið.is í oddvitum þeirra níu flokka sem bjóða sig fram í Norðausturkjördæmi og spurði út í komandi kosningar. Spurt var meðal annars um stefnu flokksins, áherslur í komandi kosningum og málefni Norðausturkjördæmis.

Markmið Kosningakaffisins er að auðvelda kjósendum að fræðast um flokkana, áherslur þeirra og stefnu, og kynnast oddvitum kjördæmisins.

Þriðji viðmælandinn er Einar Brynjólfsson, oddviti Pírata.


Hver eru ykkar helstu stefnumál fyrir komandi kosningar?

Á landsvísu eru ný stjórnarskrá, sjávarútvegsmál, loftslagsmál, barátta gegn spillingu, heilbrigðismál og menntamál mér ofarlega í huga.

Segjum sem svo að flokkurinn þinn fengi meirihluta atkvæða og gæti einn myndað ríkisstjórn. Hvert yrði fyrsta mál á dagskrá?

Fyrsta verk yrði að setja nýja stjórnarskrá á dagskrá, þannig að hún geti tekið gildi, ef hún hlýtur staðfestingu þjóðarinnar í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu, við lok kjörtímabilsins.

Hvaða málefni eru mikilvæg fyrir Norðausturkjördæmi?

Hvað kjördæmið varðar má segja að byggðamál í víðum skilningi séu helstu baráttumál mín á komandi kjörtímabili. Helsta markmiðið er að efla sveitarfélög kjördæmisins þannig að þau verði sjálfbær, að íbúar þeirra njóti grunnþjónustu sem þeir eiga rétt á og að skapa aðstæður sem tryggja aukna nýsköpun og framleiðslu í heimahögum.

Til að ná þessu fram þarf að efla sveitarfélögin, bæði með því að færa aukin völd heim í hérað og með því að láta skatta á borð við gistináttagjald, fjármagnstekjuskatt og virðisaukaskatt renna til þeirra, þar sem þeir falla til. Með því geta sveitarfélögin ráðist í fleiri verkefni sem henta hverjum stað, laus undan oki miðstýringar landsstjórnarinnar.

Meiri stuðningur við græna nýsköpun og framþróun er lykilatriði. Ég tel nauðsynlegt að styrkja græna sprota og búa til efnahagslega og skattalega hvata fyrir fyrirtæki að framleiða og selja umhverfisvænar vörur, sem og fyrir almenning að kaupa slíkar vörur. Tækifærin í grænum lausnum eru óteljandi og munu varða leiðina í atvinnu- og verðmætasköpun næstu áratugina. Ljósleiðaravæðing allra byggðakjarna og meira afhendingaröryggi raforku er forsenda öflugs, fjölbreytts og umhverfisvæns atvinnulífs. Við þurfum þó ekki bara að laða til okkar fyrirtæki og stofnanir, heldur líka að berjast fyrir því að halda þeim í héraði þannig að ekki fari fyrir þeim eins og fangelsinu á Akureyri.

Ferðaþjónusta mun augljóslega verða helsti vaxtarbroddur atvinnulífsins í kjördæminu, líkt og fyrir Covid, en hana er ekki hægt að aðskilja frá umhverfismálum. Öllum er ljóst að innviðir landsins eru ekki í stakk búnir til að taka við þeim fjölda ferðamanna sem hingað mun sækja. Við þurfum að veita miklu fé til vegagerðar, til framkvæmda við þær fjölmörgu náttúruperlur sem verða fyrir ágangi ferðamanna og til að koma upp viðunandi salernisaðstöðu um landið. Þá þurfum við að dreifa álaginu sem hlýst af þessum fjölda ferðafólks með því að beina því um landið með því að efla og markaðssetja flugvöllinn á Akureyri (og Egilsstöðum ef við tölum um kjördæmið í heild sinni).

Hvaða aðgerðir telur þú mikilvægastar til að takast á við loftslagsvandann?

Í loftslagsstefnu Pírata segir m.a.: Loftslagsmálin eru án efa eitt af stærstu viðfangsefnum samtímans. Við Píratar erum tilbúin í þær aðgerðir sem þarf að ráðast í til að byggja upp græna og sjálfbæra framtíð. Á sama tíma vitum við að fram undan eru óumflýjanlegar umbreytingar á veröld okkar sem Íslendingar, eins og heimsbyggðin öll, þurfa að búa sig undir. Við sjáum fyrir okkur samfélag og lífríki sem blómstrar þrátt fyrir þau risavöxnu verkefni sem glíma þarf við.

Kolefnishlutleysi er lykilþáttur í að leiðrétta loftslagsógnina. Við viljum ná því með því að byggja upp græna og sjálfbæra framtíð, sem krefst opinberra fjárfestinga með tilheyrandi tækifærum til nýsköpunar og atvinnuþróunar. Við viljum búa til skattalega hvata fyrir atvinnulífið til að grænvæðast, styrkja græna sprota, koma í veg fyrir stuðning við mengandi stóriðju, auka fæðuöryggi með því að efla íslenska matvælaframleiðslu, styðja við deilihagkerfið, meta allar aðgerðir ríkisins og útgjöld þess út frá umhverfis- og loftslagsmálum, svo fátt eitt sé nefnt.

Píratar vilja lögfesta markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 55% til ársins 2030 og lögðu fram tillögu þess efnis á Alþingi  í júní sl. sem því miður náði ekki fram að ganga.

Þess má að lokum geta að loftslagsstefna Pírata hlaut hæstu einkunn allra íslenskra stjórnmálaflokka hjá Ungum umhverfissinnum, eins og fram kemur hér.

Hvað finnst þér um aðgerðir ríkisstjórnarinnar í baráttunni við Covid? Hvernig fannst þér tekið á Covid á landsbyggðinni?

Lengst af voru aðgerðirnar nokkuð skilvirkar, enda í fullu samræmi við tillögur fagfólks. Tilslökunin á landamærunum, þ.e. Keflavíkurflugvelli, í sumar var hins vegar alveg misheppnuð.

Covid-veiran hefur sem betur lítið látið á sér kræla á landsbyggðinni, þannig að lítilla aðgerða hefur verið þörf, sem hafa almennt séð heppnast ágætlega.

Af hverju ættu Norðlendingar að kjósa flokkinn?

Norðlendingar ættu að kjósa Pírata vegna þess að við erum óhefðbundið stjórnmálaafl sem byggir allar sínar ákvarðanir á gögnum og rökum og býr yfir samkennd með jaðarsettum hópum, hvaðan sem fólk kemur. Píratar eru óhræddir við breytingar, líka þær sem koma utan frá, lausir við þjóðrembu, þröngsýni og tækifærismennsku. Við Píratar lítum á öll mál sem byggðamál.

Píratar eru með gríðarlega framsýna og græna kosningastefnu, sem ég hvet lesendur til að kynna sér.

Píratar vilja nýju stjórnarskrána með öllu sínu beina lýðræði, persónukjöri, auðlindum í eigu þjóðarinnar og fleira.

Barátta Pírata gegn spillingu er einnig mjög góð ástæða fyrir því að fólk ætti að kjósa flokkinn. Baráttan er ekki bara sanngirnismál heldur líka grjóthart efnahagsmál, enda tapa Íslendingar háum fjárhæðum og fjölda tækifæra á hverju ári vegna sérhagsmuna og frændhygli. Krafa Pírata um gagnsæi og aðgengi að upplýsingum er besta vopnið í þeirri baráttu.

Lýðræði – Ekkert kjaftæði!

Sambíó

UMMÆLI