Oddur Gretarsson, landsliðsmaður og hornamaður þýska liðsins Balingen-Weilstetten, leikur líklega ekki handknattleik fyrr en á næsta ári.
Oddur fór í aðgerð í lok júní vegna brjóskeyðingar í hné og hefur ekkert tekið þátt í æfingaleikjum Balingen-Weilstetten í aðdraganda keppni í þýsku 1. deildinni sem hefst á morgun. Um var að ræða fremur litla aðgerð en endurhæfingin tekur langan tíma. Þetta kemur fram í viðtali við Akureyringinn inn á handbolti.is.
Aðalmarkmiðið að verða 100% eftir vetrarfrí
Oddur fann fyrst fyrir óþægindum í öðru hné í desember á síðasta ári.
„Einkennin komu og fóru en eftir landsliðsverkefnið í lok apríl og í byrjun maí fann ég að þetta var farið að há mér of mikið,“ sagði Oddur sem ráðfærði sig þá við lækni íslenska landsliðsins, Brynjólf Jónsson, og eins bæklunarlækni í Þýskalandi sem sérhæfir sig í hnjám. Voru þeir sammála um að aðgerð væri besta lausnin.
Oddur fór í aðgerðina í Þýskalandi síðla í júní. „Eftir aðgerð tók við endurhæfing. Hún tekur sinn tíma eins og vitað var. Vonandi næ ég að spila eitthvað á þessu ári en aðalmarkmiðið er að verða hundrað prósent klár í slaginn eftir vetrarfrí,“ sagði Oddur sem kom inn í íslenska landsliðið á síðasta vetri eftir langa fjarveru. Tók hann m.a. þátt í heimsmeistaramótinu í Egyptalandi í janúar. Gangi eftir að Oddur leiki lítið eða ekkert fyrir ármót verður hann vart með íslenska landsliðinu á Evrópumótinu í Ungverjalandi í janúar.
Handbolti.is greinir frá.
UMMÆLI