NTC

Oddur Gretarsson á leið heim til Íslands

Oddur Gretarsson á leið heim til Íslands

Handboltamaðurinn Oddur Gretarsson mun flytja heim til Íslands eftir að handboltatímabilinu í Þýskalandi lýkur í vor. Oddur sem er uppalinn í Þór á Akureyri hefur spilað handbolta í Þýskalandi undanfarin 11 ár.

Undanfarin 7 ár hefur Oddur spilað með þýska liðinu Balingen en í tilkynningu á vef félagsins segir að Oddur muni ekki framlengja samning sinn þar eftir að tímabilinu lýkur.

„Við erum að sjálfsögðu mjög leiðir að missa Odd en það er ekkert sem við getum gert til að sannfæra hann. Við virðum ákvörðun hans um að snúa aftur heim,“ segir framkvæmdastjóri Balingen á vef félagsins.

Oddur segir að hann hafi tekið ákvörðunina ásamt fjölskyldu sinni og telur þetta vera réttan tímapunkt til þess að snúa heim.

„Ég er endalaust þakklátur fyrir tímann hér í Balingen og ég hef alltaf borið treyjuna með stolti. Það hefur verið sérstakt að spila hér og ég mun sakna þess. Ég er þakklátur öllu fólkinu sem ég hef fengið að kynnast hér, borginni og aðdáendunum. Ég mun koma aftur í heimsókn í framtíðinni,“ segir Oddur á vef félagsins.

Oddur segir að hann muni halda áfram að spila handbolta á Íslandi en að í augnablikinu sé hann að einbeita sér að því að klára tímabilið með Balingen og hjálpa liðinu að ná sínum markmiðum.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó