Fjölskylda á Byggðavegi á Akureyri upplifði, líkt og margir aðrir hér á landi, öðruvísi hátíðarhöld í ár vegna Covid faraldursins. Fjölskyldan var saman í einangrun yfir hátíðarnar og eitt af því sem þau gerðu til þess að stytta sér stundir var að byggja stórglæsilegt snjóhús í garðinum.
Hjónin Hólmar Erlu-Svansson og Eyrún Svava Ingvadóttir, ásamt dætrum sínum, Hildi Maríu Hólmarsdóttur-Bergmann, Agnesi Erlu Hólmarsdóttur og mökum þeirra, Martin Bergmann og Karl Baaré, fóru út í nokkra klukkutíma á hverjum degi í einangruninni og smíðuðu snjóhús. Á gamlárskvöld sátu þau svo öll saman úti í húsinu og skáluðu við arineld.
„Flestir í fjölskyldunni smituðust af Omicron og fórum við því öll í einangrun saman yfir hátíðarnar. Við vorum mjög fegin því að það byrjaði loksins að snjóa því þá gæti snjórinn allavega haft ofan af fyrir okkur í þessari einangrun. Það má ekki fara í göngutúr í einangrun. Því þurftum við að finna okkur eitthvað að brasa úti í garði svo við fengum eitthvað ferskt loft og við ákváðum að henda í metnaðarfullt snjóhús,“ segir Hildur María í spjalli við Kaffið.is.
„Þannig hefur þetta bara verið í einangruninni – höfum farið út í nokkra klukkutíma á hverjum degi og byggt alltaf meira og meira. Á gamlárskvöld gátum við setið öll saman úti í húsi ,eða Omicrib eins og við köllum það, og skálað þar við arineld. Við erum bara að reyna að gera það besta úr þessu og þó svo að áramót í einangrun hafi verið öðruvísi en við erum vön þá skapaði þetta góðar minningar.“
Hér að neðan má sjá myndir af húsinu og framkvæmdunum:
UMMÆLI