Á dögunum var undirritaður samstarfssamningur milli Háskólans á Akureyri og Háskólans í Reykjavík um meistaranám í stafrænni heilbrigðistækni. Fyrirkomulagið verður svipað og samstarf HA og HR um tölvunarfræði. Nemendur verða því skráðir við HR og greiða þangað skólagjöld en námsefnið verður rafrænt. Þetta kemur fram á vef Háskólans á Akureyri.
Tveggja ára nám
Meistaranám í stafrænni heilbrigðistækni er tveggja ára nám sem leiðir til M.Sc. gráðu (120 ECTS) og geta nemendur valið um tvær leiðir í gegnum námið:
- Rannsóknarmiðuð leið – 60 ECTS einingar helgaðar námskeiðum og 60 ECTS eru í rannsóknarmiðað lokaverkefni sem miðast að hönnun og þróun stafrænnar heilbrigðistækni eða nýtingu gagna úr heilbrigðiskerfinu til góðs
- Námskeiðismiðuð leið – 90 ECTS einingar eru helgaðar námskeiðum og 30 ECTS einingar fara í lokaverkefni sem einnig miðast að því að hanna og þróa stafræna heilbrigðistækni en þó hlutfallslega á minni skala en fyrrnefnd leið býður upp á.
„Auknir námsmöguleikar á svæðinu eru af hinu góða. Þessi nýja viðbót í samstarfinu við HR er mjög áhugaverður og spennandi kostur á framhaldsnámi fyrir bæði heilbrigðismenntað fólk sem og tölvunarfræðinga eða tæknimenntað fólk. Samstarfið við HR hefur verið afar farsælt og í dag er búið að útskrifa um 50 tölvunarfræðinga hér á svæðinu. Í þessu nýja meistaranámi er hugmyndin að leiða saman þessa tvo hópa og fá út úr því öflug teymi og nýsköpun í heilbrigðisgeiranum,“ segir Ólafur Jónsson, verkefnastjóri við tölvunar- og tæknifræði.
- Áhugasöm geta nálgast nánari upplýsingar um námið hér
- Skipulag námsins á vef Háskólans í Reykjavík
- Þann 24. apríl frá 12:00 – 13:00 verður kynning á náminu í Háskólanum á Akureyri. Nánari upplýsingar um viðburðinn hér.
UMMÆLI