Kennsla hófst í nýju íþróttahúsi við Naustaskóla í morgun. Er mikil ánægja með viðbótina meðal nemenda og starfsfólks skólans.
Nemendur Naustaskóla hafa einir aðgang að íþróttahúsinu en ólíkt öðrum íþróttahúsum bæjarins verður það ekki leigt út til íþróttafélaga eða hópa.
Hverfisnefnd naustahverfis óskaði eftir því að fá aðgang að húsinu í 2 klukkustundir á laugardagsmorgnum yfir vetrartímann í samstarfi við foreldrafélög leikskólans Naustatjarnar og Naustaskóla. Íþróttaráð Akureyrarbæjar gat ekki orðið við þeirri bón þar sem íþróttahúsið mun einungis verða notað fyrir skólaíþróttir veturinn 2016-2017.
Allir skólar bæjarins með greiðan aðgang að íþróttasal
Með tilkomu íþróttahússins við Naustaskóla hafa allir grunnskólar bæjarins nú greiðan aðgang að íþróttasal. Nemendur Lundarskóla annars vegar og Brekkuskóla hins vegar þurfa þó að fara úr skólabyggingunni til að fara í íþróttir í KA-heimilinu og Íþróttahöllinni.
Það hefur verið nóg að gera í framkvæmdum við íþróttamannvirki bæjarins undanfarið því búið er að skipta um gervigras í Boganum. Framkvæmdir í Skautahöllinni sem hófust í mars eru fullkláraðar og opnaði hún á dögunum.
UMMÆLI