Nýtt frumkvöðlasetur á Akureyri

Unnar Jónsson formaður stjórnar Akureyrarstofu, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ráðherra og Árni V. Friðriksson formaður Raftákn. Mynd: Daníel Starrason/akureyri.is

Frumkvöðlasetrið Verk-smiðjan var opnað á Akureyri í gær að viðstöddum ráðherra iðnaðar-, ferða- og nýsköpunarmála. Verk-smiðjan er til húsa að Glerárgötu 34 en verkefnið er samvinnuverkefni Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Akureyrarbæjar.

Akureyrarbær leggur til húsnæði en NMÍ rekur setrið, afgreiðir umsóknir og fylgir þeim eftir sem fá inni. Markmið frumkvöðlasetranna er að veita frumkvöðlum og fyrirtækjum aðstöðu, skapandi umhverfi, tengslanet og faglega ráðgjöf til að vinna að nýsköpun og framþróun viðskiptahugmynda. Þeir sem komast að á setrinu stendur til boða:

  • Leiga á skrifstofu- og/eða rannsóknaraðstöðu gegn vægu gjaldi og aðgangur að fundaaðstöðu
  • Fagleg ráðgjöf og stuðningur frá sérfræðingum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar
  • Skapandi umhverfi og öflugt tengslanet
  • Fræðslufyrirlestrar og upplýsingagjöf um þætti sem skipta máli í frumkvöðlaumhverfinu

Auk þess hafa frumkvöðlar aðgang að stafrænni smiðju (Fab Lab) sem rekin er við Verkmenntaskólann á Akureyri.

Við opnun Verk-smiðjunnar ávarpaði Matthías Rögnvaldsson forseti bæjarstjórnar gesti og síðan stigu í pontu Sigríður Ingvarsdóttir framkvæmdastjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Unnar Jónsson formaður stjórnar Akureyrarstofu sem afhenti „Athafna- og nýsköpunarverðlaun Akureyrar“ og Þorsteinn Ingi Sigfússon forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar. Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ráðherra opnaði frumkvöðlasetrið formlega.

Athafna og nýsköpunarverðlaun Akureyrar hlutu annars vegar fyrirtækið Raftákn fyrir áralanga metnaðarfulla og trausta starfsemi og mikilsvert framlag til atvinnulífs í samfélaginu, og hins vegar Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og Atli Örvarsson fyrir frumkvöðlastarf í upptökum á kvikmyndatónlist í Menningarhúsinu Hofi og sköpun nýrra tækifæra fyrir tónlistarfólk.

Unnar Jónsson formaður stjórnar Akureyrarstofu, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ráðherra og Árni V. Friðriksson formaður Raftákn. Mynd: Daníel Starrason/akureyri.is

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó