Föstudaginn 10. mars sl. var undirritaður samningur á milli Akureyrarbæjar og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands um rekstur frumkvöðlaseturs á Akureyri. Akureyrarbær leggur til húsnæði að Glerárgötu 34 en Nýsköpunarmiðstöð hefur umsjón með daglegum rekstri frumkvöðlasetursins, metur umsóknir og verkefni, býr frumkvöðlum góðar aðstæður og sér um leigusamninga við þá.
Tilgangur með rekstri frumkvöðlasetursins er að styðja við nýsköpun í atvinnulífi bæjarins. Frumkvöðlasetri er ætlað að auðvelda frumkvöðlum að raungera viðskiptahugmyndir sínar og hraða ferlinu frá því að hugmynd verður til og þar til rekstur hefst.
Eitt af markmiðum Atvinnustefnu Akureyrar er að auka vægi frumkvöðlastarfs. Í samræmi við þær hugmyndir hefur bærinn unnið að undirbúningi stofnunar frumkvöðlasetursins í nokkurn tíma en gert er ráð fyrir að það hefji starfsemi á vordögum. Nýsköpunarmiðstöð Íslands mun annast daglega umsjón sem felur í sér að verkefnisstjórar veita frumkvöðlum á setrinu fræðslu og handleiðslu við þau verkefni sem þeir vinna að hverju sinni. Fræðslan og handleiðslan tekur til allra þátta við þróun viðskiptahugmynda, t.d. hugmyndavinnu, þróun, undirbúning og stofnun fyrirtækis. Eins annast Nýsköpunarmiðstöð aðgang að tengslaneti fyrir frumkvöðla, viðburðum og fræðslu á vegum Nýsköpunarmiðstöðvar og samstarfsaðila. Öflug upplýsingagátt verður í gangi varðandi hagnýtar upplýsingar fyrir frumkvöðla og sprotafyrirtæki s.s. varðandi styrki, ívilnanir o.fl. Að auki heldur Nýsköpunarmiðstöð utan um sérstaka dagskrá frumkvöðlasetursins.
Áður en gengið er frá samningi við frumkvöðla um aðstöðu á frumkvöðlasetrinu þurfa að liggja fyrir starfsáætlanir og/eða verkáætlanir varðandi þau verkefni sem þeir stefna á að vinna á frumkvöðlasetrinu. Verkefnisstjórar hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands leiðbeina og aðstoða frumkvöðla við þessa áætlanagerð. Verkefnisstjórar Nýsköpunarmiðstöðvar fara reglulega, ekki sjaldnar en á tveggja mánaða fresti, yfir áætlanirnar með frumkvöðlum, kanna framvindu og árangur. Sameiginlega uppfæra verkefnisstjórar Nýsköpunarmiðstöðvar og frumkvöðlar starfsáætlanir/verkáætlanir í ljósi þess sem áunnist hefur og þess sem framundan er. Forsenda þess að frumkvöðlar hafi aðstöðu á frumkvöðlasetrinu er að þeir vinni faglega að viðskiptahugmyndum sínum og að ákveðin framþróun sé í verkefnunum.
Akureyrarbær greiðir allan rekstarkostnað vegna húsnæðisins og greiðir Nýsköpunarmiðstöð Íslands einnig árlega 3.000.000 kr. fyrir þjónustu og umsjón með rekstri frumkvöðlasetursins.
UMMÆLI