Nýtt fjölskylduleikrit í Samkomuhúsinu – Galdragáttin og þjóðsagan sem gleymdist

Nýtt fjölskylduleikrit í Samkomuhúsinu – Galdragáttin og þjóðsagan sem gleymdist

Æfingar á verkinu Galdragáttin og þjóðsagan sem gleymdist standa nú yfir í Samkomuhúsinu á Akureyri. Um er að ræða splunkunýtt verk eftir norðlenska atvinnuleikhópinn Umskiptinga en verkefnið er unnið í samstarfi við Leikfélag Akureyrar.

Frumsamið verk sem byggir á gömlum þjóðsögum

Um hvað fjallar sýningin? „Í Hringvallaskóla opnast fyrir algjöra slysni gátt inn í heim íslenskra þjóðsagna. Saklausum sjöundabekking, Jóni Árnasyni er í kjölfarið rænt af Húmskollunni skelfilegu svo bekkjarsystkini hans Sóley og Bjartur leggja upp í háskaför honum til bjargar. Við tekur æsispennandi atburðarás þar sem hinar ýmsu kynjaverur íslenskra þjóðsagna koma fyrir, Nykur, Skoffín og Skuggabaldur ásamt fleirum. Ná þau að bjarga Jóni Árnasyni? Er Nykrinum treystandi? Hver á augun í myrkrinu? Hver er þessi Húmskolla? Er einhver leið að komast lifandi aftur til mannheima?”

Frábært að koma norður og leikstýra sýningu sem byggir á íslenska þjóðsagnaarfinum

Leikstjórn er í höndum Agnesar Wild sem er Norðlendingum vel kunnug en hún leikstýrði bæði Fuglakabarettinum Krunk krunk og dirrindí og gamanleiknum Djáknanum á Myrká á síðasta leikári. Norðlenska tónlistardúóið Vandræðaskáld semja tónlistina sem er útsett af Kristjáni Edelstein, en Katrín Mist Haraldsdóttir sér um dans- og sviðshreyfingar. Auður Ösp Guðmundsdóttir annast leikmyndar- og búningahönnun en hún var einnig leikmyndar- og búningahönnuður fyrir söngleikinn Kabarett á síðasta leikári og hlaut fyrir það Grímutilnefningar. Þá er Lárus Heiðar Sveinsson ljósahönnuður og Gunnar Sveinbjörsson hljóðhönnuður.

„Það er æðislegt að fá að koma norður og búa til sýningu sem byggir á íslenska þjóðsagnaarfinum og það á 200 ára fæðingarafmæli Jóns Árnasonar,“ segir Agnes Wild leikstjóri. 

Annað verk leikhópsins Umskiptinga sem hlutu Grímutilnefningu fyrir sitt fyrsta verk

Atvinnuleikhópinn Umskiptinga skipa þau Birna Pétursdóttir, Jenný Lára Arnórsdóttir, Margrét Sverrisdóttir, Sesselía Ólafsdóttir og Vilhjálmur B. Bragason. Árið 2017, þegar leikhópurinn var stofnaður og setti upp sína fyrstu sýningu Framhjá rauða húsinu og niður stigann, markaði það tímamót. Það var í fyrsta skipti í 4 ár sem atvinnuleikhópur var starfandi á Akureyri.  Umskiptingar hlutu í kjölfar sýningarinnar tilnefningu til Grímunnar sem sproti ársins 2018. 

Markmiðið að efla atvinnuleikhús á landsbyggðinni

„Þegar við stofnuðum Umskiptinga vorum við í raun bara að skapa okkur sjálfum tækifæri og starfsgrundvöll í heimabyggð við það sem við erum menntuð í,“ segir Birna Pétursdóttir Umskiptingur og einn af höfundum sýningarinnar. Yfirlýst markmið Umskiptinga var þá og er enn að efla atvinnuleikhús á landsbyggðinni, sér í lagi á Norður- og Austurlandi, ásamt því að auka veg og vanda íslenskrar leikritunar. „Það er okkur Umskiptingum virkilega mikils virði að hafa annars vegar hlotið styrk frá Leiklistarráði Mennta- og menningarmálaráðuneytis og listamannalaun vegna sýningarinnar en ekki síður að geta unnið sýninguna í samstarfi við Leikfélag Akureyrar,” segir Birna.

Með styrknum gátu Umskiptingar ráðið til sín listamenn og þannig verið atvinnuskapandi á svæðinu, en utan meðlima Umskiptinga fara með hlutverk í sýningunni Jóhann Axel Ingólfsson og Hjalti Rúnar Jónsson sem ráðnir voru í verkefnið ásamt þeim listrænu stjórnendum sem fram komu hér að ofan en þeir voru báðir áberandi á síðasta leikári LA.

Frumsýning er 5. október en miðasala er hafin á mak.is

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó