Akureyrarbær hefur hafið undirbúning að nýju deiliskipulagi fyrir svæði ofan byggðar á nyrðri hluta þorpsins í Hrísey. Skipulagið nær yfir um 8 hektara svæði og mun taka til svæðis ofan núverandi íbúðarlóða, auk nokkurra núverandi bygginga.
Meðal helstu markmiða skipulagsins er að skoða möguleika á nýjum íbúðar- og athafnalóðum, þétta byggð á svæðinu, skilgreina byggingarreiti á núverandi lóðum og setja ákvæði um viðbyggingar og endurbyggingar
Svæðið sem um ræðir er gróið og hallar aflíðandi til austurs. Innan þess eru meðal annars parhúsalóðir við Miðbraut, Gamli skólinn, íþróttasvæði og áhaldahús.
Skipulagsferlið er nú á frumstigi og er áætlað að vinnu við deiliskipulagið ljúki í lok árs 2024. Íbúar og aðrir hagsmunaaðilar munu fá tækifæri til að kynna sér tillögurnar og koma með athugasemdir þegar líður á ferlið.
Nánari upplýsingar má finna á vef Akureyrarbæjar.