Nýtt áfangaheimili opnað á Akureyri

Nýtt áfangaheimili opnað á Akureyri

Nýlega opnaði nýtt áfangaheimili á Akureyri fyrir fólk sem hefur átt við áfengis- og annan vímuefnavanda að stríða og er í virkri endurhæfingu eftir meðferð. Slíkt áfangaheimili hefur ekki verið starfandi á svæðinu undanfarið þrátt fyrir langa biðlista á áfangaheimili annarsstaðar á landinu öllu. Það er því stór áfangi að slíkt úrræði sé nú í boði á Akureyri.

Á heimilinu eru 12 herbergi en það er rekið án opinberra styrkja en starfsemin er í samstarfi við SÁÁ. Á áfangaheimilinu, sem fengið hefur nafnið Benedikta, getur fólk á öllum aldri tekið herbergi á leigu í 3 til 12 mánuði að lokinni meðferð hjá SÁÁ. Markmiðið er að búa fólki öruggt umhverfi og aðstoða það við að fóta sig í samfélaginu að nýju.

Tímabært að fá áfangaheimili á Akureyri

Þuríður Þórðardóttir, ein þeirra sem rekur áfangaheimilið, segir mikla þörf fyrir slíkt úrræði enda engin í boði fyrir utan höfuðborgarsvæðið. Sjálf hefur Þuríður verið í AA-samtökunum í 25 ár og er málefninu vel kunnug. Í samtali við Rúv segir hún viðbrögðin ekki látið á sér standa og fjölmargar fyrirspurnir hafi borist. Hörður Oddfríðarson, hjá göngudeild SÁÁ á Akureyri, tekur nýja áfangaheimilinu fagnandi og segir að samtökin séu boðin og búin að þjónusta íbúa þar. Mikil þörf sé fyrir fleiri pláss á áfangaheimilum landsins og tímabært að fá eitt slíkt á Akureyri. 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó