Nýr veitingaaðili opnar í Hofi á nýju ári

Nýr veitingaaðili opnar í Hofi á nýju ári

Menningarfélag Akureyrar hefur gert samning við rekstaraðilann H90 restaurant ehf. til að taka við rekstri veitingastaðarins í Menningarhúsinu Hofi. Þetta kemur fram á vef Menningarfélagsins í dag.

Veitingafólkið Einar Hannesson og Guðbjörg Einarsdóttir standa að baki H90 restaurant ehf. en þau eru eigendur Eyju – vínstofu og bistró í hjarta Akureyrar. „Með þeim stendur öflugt og reynsluríkt teymi sem mun setja punktinn yfir i-ið í upplifun gesta sem koma í Hof,“ segir í tilkynningu Menningarfélags Akureyrar.

„Við erum ofsalega spennt. Húsið og allt hér inni er svo ótrúlega fallegt og það að geta boðið upp á veitingar og þjónustu sem hæfir Hofi er spennandi,“ segja Einar og Guðbjörg.

Veitingastaðurinn í Hofi verður með ítölsku ívafi en nafn hans verður tilkynnt síðar. H90 tekur við keflinu í byrjun desember og sinnir því veitingasölu á viðburðum í jólamánuðinum en opnar svo með pompi og prakt fljótlega á nýju ári.

Eva Hrund Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Menningarfélags Akureyrar, segir afar verðmætt að fá aftur veitingaaðila í Hof. „Ég fagna því að samningar hafi náðst við þennan flotta og reynsluríka rekstraraðila. Það verður notalegt að gestir geti á ný sest niður og notið veitinga í þessu fallega húsi okkar.“

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó