Nýr samstarfssamningur við íþróttafélög bæjarins

Mynd: akureyri.is.

Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri Akureyrar, og Geir Kristinn Aðalsteinsson, formaður Íþróttabandalags Akureyrar (ÍBA), undirrituðu í dag nýjan samstarfssamning um samskipti Akureyrarbæjar við íþróttafélögin í bænum, styrkveitingar, rekstur og önnur sameiginleg hagsmunamál. Þessu er greint frá á vef Akureyrarbæjar.

Markmið samningsins er að efla íþróttastarf á Akureyri og tryggja að það verði blómlegt og kraftmikið öllum bæjarbúum til heilla. Í því felst að skapa sem bestar aðstæður til að reka starfsemi sem tryggir bæjarbúum öflugt íþróttastarf, einkum í barna- og unglingastarfi.

Með samningnum fær ÍBA aukið rekstrarfé til að efla starf sitt og er meðal annars gert ráð fyrir framkvæmdastjóra í fullu starfi. Aðildarfélög ÍBA, sem eru 23, skulu nú sem aldrei fyrr beina öllum erindum sínum til ÍBA sem vinnur málin áfram og vísar ef þurfa þykir til frístundaráðs Akureyrarbæjar. ÍBA ber að fylgja því eftir að aðildarfélögin sinni faglegu starfi í hvívetna í samræmi við íþróttanámskrá ÍBA, barna- og unglingastefnu ÍSÍ og íþróttastefnu Akureyrarbæjar og ÍBA.

Samningurinn gerir ráð fyrir því að reglur um tímaúthlutun til aðildarfélaga í íþróttamannvirkjum Akureyrarbæjar verði endurnýjaðar fyrir haustið 2018. Einnig mun skrifstofa ÍBA sjá um umsýslu rekstrarstyrkja til aðildarfélaga, styrkja úr Afrekssjóði Akureyrar og kvennastyrkja sem voru áður í umsjón íþróttadeildar Akureyrarbæjar. Samningurinn gerir kröfu um að ÍBA taki saman tölfræði og greinagóðar upplýsingar um íþróttastarf á Akureyri auk þess að taka við yfirumsjón með rafrænu skráningarkerfi sem aðildarfélög nota undir vefsíðunni https://iba.felog.is/. ÍBA skal samkvæmt samningnum kalla eftir upplýsingum frá aðildarfélögum ár hvert yfir verkefni, framkvæmdir, viðhald og endurnýjun áhalda og búnaðar, þar sem þörf er á aðkomu Akureyrarbæjar. ÍBA skal forgangsraða tillögum aðildarfélaga og skila til frístundaráðs sem í framhaldinu hefur tillögurnar til hliðsjónar við gerð fjárhagsáætlunar.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó