Nýr samningur við eldri borgara

Frá undirritun samningsins í gær. Talið frá vinstri: Margrét Pétursdóttir ritari EBAK, Dóra Steinunn Jónasdóttir gjaldkeri, Halldór Gunnarsson varaformaður og Haukur Halldórsson formaður. Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri, Silja Dögg Baldursdóttir formaður frístundaráðs og Kristinn J. Reimarsson sviðsstjóri samfélagssviðs.

Í gær var undirritaður nýr samningur Akureyrarbæjar og Félags eldri borgara á Akureyri (EBAK) sem miðar að því að tryggja eldri borgurum á Akureyri aðgang að eins góðu félags- og tómstundastarfi og kostur er. Markmiðið er að tryggja og viðhalda andlegri, félagslegri og líkamlegri færni þeirra til að njóta efri áranna eftir vilja og getu hvers og eins. Samningurinn gildir frá 1. janúar 2018 til 31. desember 2020.

Félags- og tómstundastarfi fyrir eldri borgara á vegum Akureyrarbæjar er fyrst og fremst ætlað að skapa þær ytri aðstæður sem þarf til að efla frumkvæði, sjálfstæði og áhuga og stuðla að meiri virkni og þátttöku eldri borgara. Það er sameiginlegur skilningur aðila að stuðningur við EBAK sé bundinn því að starfsemin í félagsmiðstöðinni við Bugðusíðu sé opin öllum eldri borgurum í bænum. Stefnt skal að því að félagsmiðstöðvarnar í Bugðusíðu og Víðilundi verði með heilsársopnun. Opnunartími og þjónustuframboð verður þó minna í sniðum yfir sumartímann.

EBAK mun koma að skipulagningu starfseminnar með Akureyrarbæ í þeim tilgangi að efla starfsemina eftir þörfum og virkja áhuga og frumkvæði eldri borgara til ánægjulegrar samveru í félagsmiðstöðvunum. EBAK vinnur með Akureyrarbæ að því að hvetja eldri borgara til að njóta félagslífs og sækja félagsmiðstöðvarnar.

EBAK tekur að sér að hafa umsjón með opnunartíma félagsmiðstöðvarinnar Víðilundi í júlímánuði. Opið verður frá kl. 9 til 12 alla virka daga. Gengið er út frá því að á árinu 2018 taki EBAK yfir umsjón með Bugðusíðu frá 1. júní.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó