NTC

Nýr leikskóli mun rísa í HagahverfiMynd/Akureyrarbær

Nýr leikskóli mun rísa í Hagahverfi

Í gær var undirritaður samningur Akureyrarbæjar og Húsheildar ehf. um hönnun og byggingu leikskóla við Naustagötu í Hagahverfi ásamt frágangi á leiksvæði, leiktækjum, bílastæði og öðru á lóð. Þetta kemur fram vefsíðu Akureyrarbæjar.

Lóð leikskólans er um 9.328 m² að stærð og gert er ráð fyrir 40-50 bílastæðum á lóðinni. Byggja skal einnar hæðar byggingu sem verður um 1.665 m². 

Markmiðið er að bæta úr þörf fyrir 8 deilda leikskóla við Naustagötu 9 í Hagahverfi á Akureyri og að öll aðstaða fyrir börn og starfsfólk verði til fyrirmyndar. Leikskóli í Hagahverfi  verður við Naustagötu þar sem bærinn Naust 2 stóð áður. Á lóðinni er nokkur trjágróður sem lögð er sérstök áhersla á að nýta sem  best fyrir leikskólalóðina. Lóðin er einnig í  góðum tengslum við fallega náttúru og útivistarsvæði með trjárækt.

Leikskólinn er fyrir um 156 börn á 8 deildum, leikrými fyrir hvert barn verði að lágmarki 3,5m². Börnin eru á aldrinum eins árs til sex ára. Gert er ráð fyrir allt að 47 stöðugildum i leikskólanum en mestur getur fjöldinn orðið 55 samtímis, vegna afleysinga og sérstuðnings. Markmið Akureyrarbæjar með byggingu leikskólans eru að bæta úr þörf fyrir 5 deildir 2026 og fullbúinn leikskóla með 8 deildum árið 2028.

Verkinu er skipt í tvo áfanga. Fyrri áfanga skal ljúka í ágúst 2026 en hann felur í sér fullnaðarfrágang á 4-5 deildum og hluta lóðar ásamt bílastæðum. Síðari áfanginn er fullnaðarfrágangur á leikskólanum sem skal lokið í júní 2028.

Hægt er að lesa nánar um verkið á vefsíðu Akureyrarbæjar.

Mynd/Hulda Sif Hermannsdóttir. Samningurinn undirritaður. Ólafur Ragnarsson forstjóri Húsheildar ehf. og Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri.
Sambíó

UMMÆLI