Við létum plata okkur, horfumst í augu við það. Við keyptum þá hugmynd að besta leiðin til að fá aukna orku væri ekki að sofa meira, borða hollt eða hreyfa okkur heldur skella í okkur orkudrykk og málið leyst, við klár í hvað sem er. Í þessum stóra heimi upplýsinga og nýjunga er ekki alltaf hægt að fylgjast með öllu og þegar ný æði valta yfir landann erum við fljót að taka við gagnrýnislaust þegar okkur líst á eitthvað sem í fljótu bragði á að bæta líf okkar. En vitneskjan er til og við þurfum að kynna okkur hana, lýðheilsa barna okkar skiptir máli.
Orkudrykkir eru á örskömmum tíma orðnir fastir liðir í daglegri rútínu landans. Þeir eru svalandi, góðir á bragðið og innihalda ofurskammta af koffíni sem gera það að verkum að okkur langar ekki bara í annan, við þörfnust hans. Koffín eins og önnur vímuefni er ávanabindandi og veldur fráhvörfum í líkamanum ef hann fær ekki næsta skammt. Það er ekki vinsælt að tala illa um koffín, það er jú koffín í kaffi og meirihluti fullorðins fólks er háð kaffi, verum ekkert að hrófla við því.
Fullorðnir hafa drukkið kaffidrykki af miklum móð svo öldum skipti. Hér áður fyrr var börnum jafnvel gefinn bollinn þó það hafi ekki tíðkast í seinni tíð, enda kaffi almennt ekki talið þeim hollt. Börnum þykir allajafna kaffi heldur ekki gott á bragðið, og oft ekki hinum fullorðnu heldur, sumir þurfa að venja sig á drykkinn, og ef þeim tekst það eru þau innvígð í klúbb hinna fullorðnu.
Það er þó meginmunur á orkudrykkjum og kaffi. Í venjulegum bolla af kaffi er um 50-60 mg af koffíni. Í helstu orkudrykkjunum sem fást hér á landi eru koffínskammtarnir 105 – 180 mg. Koffín skammturinn er því talsvert meiri í orkudrykkjum og fráhvörfin sömuleiðis. Unglingarnir okkar eru því að fara inn og úr fráhvörfum allan daginn sem hefur áhrif á einbeitingu, athygli, skap og ekki síst á svefn. Svefnviðmið fyrir unglinga eru 8-10 tímar. Nýjar rannsóknir sýna að unglingar á Íslandi eru að sofa mun minna en unglingar í Evrópu og fylgni er á milli þess að drekka orkudrykk og sofa of lítið. Þess ber einnig að geta að þeim mun meira sem drukkið er af orkudrykk þeim mun minna er sofið. Sömuleiðis eru unglingar almennt minni en fullorðið fólk svo að koffínskammtar í orkudrykkjum hafa meiri áhrif á þau sökum líkamasstærðar (hámarksneysla koffíns barna og unglinga ætti ekki að vera meiri en 2,5 mg per kg.
Ef rýnt er í tölur um orkudrykkjaneyslu unglinga á Íslandi kemur í ljós að drykkjan eykst með aldri. Samkvæmt rannsóknum Rannsóknar og greiningar (2020) er svipaðar tölur milli kynja sem drekka 1 eða fleiri orkudrykki daglega, í 8. bekk um 20%, 27% í 9. bekk en 33% í 10. bekk.
Munum að börn læra það sem fyrir þeim er haft. Foreldrar og aðrir fullorðnir sem þau umgangast eru þeirra helstu fyrirmyndir, áhrifavaldar og aðrir sem eru þeim ókunn hafa ekki roð í það og ekki hægt að kenna þeim um. Tökum ábyrgð og ákvarðanir sem eru börnum okkar fyrir bestu.
Forvarna- og félagsmálaráðgjafar Akureyrar
UMMÆLI