NTC

Nýjar jólaskreytingar á Akureyri

Nýjar jólaskreytingar á Akureyri

Ákveðið var að bæta við nýjum jólaskreytingum á almennum svæðum á Akureyri fyrir þessi jól. Í frétt á vef Akureyrarbæjar segir að áhersla hafi verið lögð á að skreyta bæinn vel að undanförnu og lýsa upp svartasta skammdegið.

„Var þetta einkum gert til að bregðast við óvenjulegum aðstæðum í samfélaginu og lágstemmdari aðventu en flestir hafa vanist af völdum heimsfaraldursins,“ segir á vef bæjarins.

Af nýjum jólaskreytingum má til dæmis nefna vafninga með seríum á milli ljósastaura við Gránufélagsgötu og á Ráðhústorgi, seríur í trjám í göngugötunni og kastara sem lýsa upp tré ofan við Listagil, Skátagil og Andapoll. Auk þess hafa verið settar seríur í tré við Laxdalshús.

Að venju fer mest fyrir jólaskreytingum í miðbænum og þar í kring, en þó er einnig búið að færa Kjarnaskóg í jólaklæðin með skreyttum trjám og seríum. Þrír vagnar úr flota Strætisvagna Akureyrar hafa einnig verið skreyttir að innan með jólaseríu og greni.

„Við höfum fengið töluverð viðbrögð frá farþegum. Fólki finnst þetta flott og er ánægt með að lífgað sé upp á skammdegið“ segir Engilbert Ingvarsson verkstjóri hjá Umhverfismiðstöð.

Myndir af skreytingunum má nálgast á vef bæjarins með því að smella hér.

Sambíó

UMMÆLI