Í gær og í dag hefur verið skrifað undir rekstrarsamninga við Knattspyrnufélag Akureyrar, KA, Hestamannafélagið Létti og Skautafélagi Akureyrar, SA. Samningarnir gilda allir til ársins 2023.
Í samningunum er kveðið á um að félögin sjái um rekstur og hafi umsjón með mannvirkjum í eigu Akureyrarbæjar. Um er að ræða öll mannvirki á íþróttasvæði KA, Akureyrarvöll og vöktun á íþróttahúsi Naustaskóla eftir að skóla lýkur í tilfelli KA, rekstur reiðhallarinnar hjá Létti og rekstur skautahallarinnar hjá SA.
Félögin skulu einnig annast alla þjónustu við almenning og við æfingar og mót á vegum félaganna og annarra sem nýta mannvirkin.
Ákvæði eru í samningunum um að félögunum sé skylt að halda bókhald um reksturinn, skila rekstraráætlunum og ársreikningi til Akureyrarbæjar. Að auki skulu félögin gera grein fyrir rekstrarstöðu tvisvar á ári á sérstökum fundum með þeim starfsmönnum Akureyrarbæjar sem hafa eftirlit með framkvæmd samninganna.
Á næstu dögum verður skrifað undir sambærilega samninga við Íþróttafélagið Þór og Golfklúbb Akureyrar. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Akureyrarbæ.
UMMÆLI