Nýir aðilar taka við rekstri Hamborgarafabrikkunnar á AkureyriHjónin Jóhann Stefánsson og Katrín Ósk Ómarsdóttir ásamt Jóhannesi Ásbjörnssyni.

Nýir aðilar taka við rekstri Hamborgarafabrikkunnar á Akureyri

Hjónin Jóhann Stefánsson og Katrín Ósk Ómarsdóttir, sem þegar reka tvo Lemon staði á Akureyri, koma til með að taka við rekstri Hamborgarafabrikkunnar á Akureyri þann 1. júní n.k. Hamborgarafabrikkan opnaði á jarðhæð Hótel Kea 15. Maí 2013, þá annar Fabrikkustaðurinn til að opna en núna eru þeir þrír í heildina. Hjónin Jóhann og Katrín taka formlega við rekstrinum í svokölluðu „franchise“ fyrirkomulagi, sem þýðir að staðurinn verður áfram undir formerkjum Hamborgarafabrikkunnar.

Fabrikkan í hendur heimamanna

Jóhannes Ásbjörnsson, einn eigenda Hamborgarafabrikkunnar, segir reksturinn fyrir norðan ævinlega hafa gengið vel en fjarlægðin hafi verið ákveðin fyrirstaða, þar sem eigendur eru allir búsettir fyrir sunnan.

„Við höfum velt þessum möguleika fyrir okkur í nokkurn tíma en þegar við hittum Jóhann og Katrínu sannfærðumst við um að við hefðum fundið réttu samstarfsaðilana“, segir Jóhannes Ásbjörnsson og bætir við að síðustu sex ár hafi reksturinn gengið mjög vel og allar vaxtaberandi skuldir félagsins greiddar. „Þetta er frábær tímapunktur fyrir nýja rekstraraðila til að taka næstu skref í sögu félagsins. Við erum sammála um tækifærin sem liggja fyrir félaginu á næstu árum og að Akureyringarnir Katrín og Jóhann séu í betra færi til að ná til þeirra. Það er stærsta ástæðan fyrir því að okkur fannst spennandi að fara með staðinn í leyfisfyrirkomulag sem þetta.“

Lemon rekinn í leyfisfyrirkomulagi á Akureyri

Það má segja að Jóhann Stefánsson og Katrín Ósk Ómarsdóttir séu kunnug staðháttum í veitingarekstri á Akureyri en þau opnuðu fyrsta Lemon staðinn á Akureyri vorið 2017 í samskonar „franchise“-fyrirkomulagi og Hamborgarafabrikkan verður rekin í. Rekstur Lemon hefur gengið frábærlega fyrir norðan og nýverið opnuðu hjónin stað númer tvö á Ráðhústorgi. „Við erum afar spennt fyrir því að fá að reka Hamborgarafabrikkuna hér á Akureyri. Þetta er einn af risunum á íslenskum veitingamarkaði og með þekktari vörumerkjum landsins. Við erum sannfærð um að þessar breytingar munu efla Fabrikkuna hér fyrir norðan enda er það lögmál í veitingarekstri að rekstraraðilar þurfa að vera á staðnum með huga og hönd til að allt geti gengið sem best“, segir Jóhann.

Sama Hamborgarafabrikkan – engar breytingar

„Franchise“ fyrirkomulagið er þekkt um allan heim hjá stórum sem smáum vörumerkjum. Það gengur í stuttu máli út á að rekstraraðilar sem þekkja sitt nærumhverfi og sinn heimamarkað fá tækifæri til að verða hluti af stærri fyrirtækjakeðju. Þannig njóta rekstraraðilar stuðnings og leiðsagnar frá höfuðstöðvum og greiða leyfisgjald til móðurfélagsins. Að öðru leyti sjá þau um reksturinn að fullu.

Engar breytingar verða á Hamborgarafabrikkunni á Akureyri, hvorki hvað varðar staðinn sjálfan, matinn eða starfsfólkið. „Við tökum við frábærum stað með frábæru fólki sem ætlar að starfa með okkur áfram. Við hlökkum mikið til sumarsins og framtíðarinnar hér fyrir norðan“, segir Katrín Ósk

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó