Ný viðbót við veitingastaðinn Centrum

Ný viðbót við veitingastaðinn Centrum

Síðustu mánuði hefur gamli Pósthúsbarinn tekið á sig nýja mynd en þar mun veitingastaðurinn Centrum fljótlega opna nýja viðbót. Veitingamaðurinn Garðar Kári Garðarsson, sem stendur að breytingunum, hefur fengið ófáar spurningar um hvenær muni opna. Kaffið ákvað því að taka hann að tali og fá að fræðast um staðinn og opnunina. Spenningurinn leynir sér ekki hjá Garðari.

Í hverju felst nýja viðbótin?

Centrum er ungt fyrirtæki sem á bara eftir að bæta við sig blómum, rétt eins og tré sem vex þá eykst styrkur þess með árunum, viðbótin á Centrum endurspeglar það eðli. Mikið hefur verið lagt í hönnun og val á litum, efnum, áferð og útlit til þess að skapa geggjað veitingasvæði fyrir viðskiptavini okkar. Það er mjög mikil uppbygging á Centrum hótelinu og þörf á sætum fyrir fleiri gesti. Auk þess þá viljum við auka við flóru Akureyrar fyrir afþreyingu og skemmtun með því að stækka barinn okkar. Stækkunin er öll á sömu hæð og Centrum og margir muna eftir svæðinu sem „gamli pósthúsbarinn“ sem hefur ekki starfað síðan í febrúar 2020, en það má segja að það sé varla stök skrúfa sem var þar eftir, heldur er búið að gjörsamlega endurhanna svæðið!

Hvenær opnar?

Þetta er ótrúlega tilfinningalegt móment því að verkefnið sem virtist bara draumur fyrir nokkrum vikum er að verða að veruleika núna um helgina. Við opnum á föstudaginn kl 20 fyrir almenning! Síðan verða nokkrar spennandi viðbætur við mat- og drykkjarseðla: Það er sérhannaður LOUNGE seðill með smáréttum sem hægt er að panta fram eftir kvöldi og sturlaðir kokteilar sem eru svona „Lounge signature“ þar sem að barþjónarnir fá að leika sér með brögð, áferð og upplifun,“ segir Garðar.

Þetta er stór breyting á Centrum, hvaðan spratt hugmyndin að þessu verkefni?

Carsten Tarnow fær allan heiður fyrir að koma verkefninu af stað, það má segja að hugmyndin sé þrjár flugur í einu höggi: Centrum veitingastaðurinn mætti vera stærri og okkur vantaði sal þar sem að gestir geta verið prívat, fyrir veislur, hópa og slíkt. Centrum hótel fær núna bjarta og skemmtilega móttöku fyrir hótelgesti. Og þar sem að okkar megin gildi eru að skapa skemmtilega stemmingu fyrir viðskiptavini okkar þá er sófasvæðið á Lounge alveg geggjuð viðbót.

Opnunartímar á Lounge, til að byrja með, verður: Fimmtudaga frá kl. 16-00, föstudaga og laugardaga frá 16-01 og lagt verður upp með að vera með lifandi tónlist og viðburði á þessum dögum, svo í sumar þá verður opið alla daga.

„Brjáluð spenna! En á sama tíma þá erum við ótrúlega þakklát fyrir þá aðstoð sem við höfum fengið við að láta drauminn verða að veruleika,“ segir Garðar að lokum.

Sambíó
Sambíó