Framsókn

Ný skáldsaga eftir Akureyringinn Kára Valtýsson

Ný skáldsaga eftir Akureyringinn Kára Valtýsson

Akureyringurinn Kári Valtýsson gaf nú á dögunum út sína þriðju skáldsögu. Bókin heitir Kverkatak og er gefin út af Hringaná ehf. Bókin er í dreifingu sem stendur. Fyrir jólin 2018 og 2019 gaf hann út bækurnar Hefnd og Heift á vegum Sögur útgáfu ehf.

Bókin Kverkatak fjallar um lögfræðing sem starfar hjá tryggingafélagi og er orðinn býsna lífsleiður. Hann er eiginlega með allt á hornum sér enda hefur gengið á ýmsu í hans lífi eins og lesendum er smám saman gerð grein fyrir. Dag einn byrjar ung kona að vinna hjá tryggingafélaginu og lögfræðingurinn gerir hosur sínar grænar fyrir henni og lítur þar algjörlega fram hjá þeirri staðreynd að hann er ráðsettur maður. Eitt leiðir af öðru og áður en hann veit af hefur hann grafið lík í Leiruvogi, hjónabandið er farið í vaskinn, vinnan fer í hundana og það allt í sama mánuðinum. Til að bæta gráu ofan á svart dregur líkgröfturinn verulegan dilk á eftir sér og undirheimarnir láta á sér kræla auk þess sem lögreglan er fljótlega komin á sporið. Allir þessir þræðir tengjast saman svo úr verður spennusaga.

Kári er 37 ára og búsettur í Reykjavík ásamt eiginkonu sinni og þremur börnum. Á Kári þó rætur sínar að rekja til Akureyrar. „Ég ólst upp á brekkunni, gekk í Barnaskóla Akureyrar (Brekkuskóli í dag). Ég á fjórar bræður sem ég ólst upp með þarna fyrir norðan. Lífið var mjög einfalt í þá daga snerist um körfubolta og fátt annað. Svo breyttust áhugamálin með tímanum, fór að bakstra við tónlist þegar ég var í MA sem ég útskrifaðist frá árið 2005. Sumarvinnan mín eftir að ég byrjaði í lögfræðinni í HÍ var á Akureyri. Kom þá heim á sumrin og vann á næturvöktum á sambýli. Það var þar sem ég fór að prófa mig áfram við skriftir. Ég var minnir mig 21 árs þegar fyrsta handritið var klárt. Það var ekki gott. Skrifaði fullt á næturvöktum og svo allar götur síðan en það fór allt beina leið í ruslið eða í náttborðsskúffuna fyrstu árin. Eftir að hafa fyllt margar náttborðsskúffur og ruslatunnur kom út mín fyrsta bók árið 2018 og svo önnur 2019. Það voru vestrar sem heita Hefnd og Heift og komu út hjá Sögum útgáfu,“ segir Kári.

Þegar Kári er spurður um tilurð þessarar nýjust bókar hans segir hann: „Þessa bók byrjaði ég að skrifa fyrir u.þ.b. sjö árum en lagði hana alltaf frá mér. Hún blundaði samt alltaf í mér og mig langaði að gera hana rétt. Stíllinn er svolítið öðruvísi en gengur og gerist í spennusögum. Bókin er öll sögð í fyrstu persónu í nútíð, frekar stuttar setningar, svona harðsoðinn stíll. Ég fann að ég var ekki alveg að valda hugmyndinni svona fyrst um sinn en skrifaði hana alla út fyrir mjög löngu síðan. Svo endurskrifaði ég hana þrisvar frá grunni minnir mig áður en þetta varð í lagi. Svo hef ég verið að fínpússa hana og uppfæra samhliða öðrum skrifum. Bókin er þannig búin að taka mjög miklum breytingum en nú er ég mjög sáttur við hana. Sem betur fer voru útgefendur mínir hjá Hringaná ehf. það líka og nú hefur þessi bók litið dagsins ljós.“

Kári segist alltaf vera að fást við skrif og sé hann að vinna að nýju handriti af bók um þessar stundir sem hann vonar að komi út í náinni framtíð.

VG

UMMÆLI

Sambíó